Ég er bara röflandi kerling!

Sem fv. íbúi Skagafjarðar og fyrrverandi formaður Sjálfsbjargar þar, langar mig að rita nokkur orð um störf embættismanna sem starfa hjá sveitarfélaginu. Aðgengismál hafa verið mér hugleikin frá því að fv. eiginmaður minn, hlaut mænuskaða eftir vinnuslys árið 2011 og var hjólastóll því hluti að mínu lífi um tíma.

Að geta tekið þátt í mannlífi er okkur öllum mikilvægt og vera gildur einstaklingur í samfélagi tel ég einnig mjög mikilvægt. En til þess að það vera gildur einstaklingur þá þarf að gera ráð fyrir að allir hafi jafnan rétt og gott aðgengi að samfélaginu.

Frá 2011 hafa embættismenn sveitarfélagsins klúðrað hverju aðgengismálinu á fætur öðrum og reyndar þarf að hugsa hvar það hefur tekist í fyrstu hugmyndavinnu að gera ráð fyrir fólki með skerta hreyfigetu….. Ég er búin að fara í gegnum þetta í huganum og finn enga framkvæmd sem hefur tekist.

Fyrst eftir að við vorum að reyna aðlaga okkur þessu nýja lífi með aðgengi, þá uppgötvuðum við að salernismál í Höfðaborg á Hofsósi var í ólestri og raunar á fyrstu þorrablótunum þurfti að fara um langan veg á salerni. Þegar sveitarfélagið fór í verkið að reyna að bæta aðgengið fyrir hreyfihamlaða, gleymdist að hugsa um að fólk þyrfti að komast inní húsið til að fara á salernið og þess má geta að ekki er löglegt bílastæði fyrir utan Höfðaborg en þann dag í dag.

Safnahúsið fór í yfirhalningu og gleymdist að búa til salerni fyrir hreyfihamlaða en það var sett inn eftir nokkrar teikningar og er sú framkvæmd best heppnuð frá því að ég fór að fylgjast með þessu.

Ströndin, þar sem fundir sveitarfélagsins eru haldnir eru á mjög gráu svæði varðandi salernismál hreyfihamlaðra þar sem ekki er nægjanlegt rými eins og lagt er upp með hjá Mannvirkjastofnun. Fyrir svo utan það hversu lélegt aðgengið er að Húsi Frítímans og hef ég oft hugsað um af hverju ekki er gert upphitað bílastæði hinum megin við húsið til að auðvelda „h“eldri borgurum að sækja félagskap þangað, þannig að þeir þurfa ekki að vera dansandi í hálku til að sækja þá þjónustu.

Ég var mjög spennt fyrir planinu hjá íþróttahúsinu og Árskóla enda með því sóðalegasta fyrir fólk í hjólastólum að trylla sér eftir drullunni það má einnig nefna það að vera á dekkjum á hálu plani er ekki heldur þægilegt fyrir hreyfihamlaða. En nei ekki tókst sú framkvæmd heldur…

Bílastæði fyrir fólk sem er hreyfihamlað er samkvæmt lögum verður að vera innan við 25 metrum frá inngangi og þar sem rampurinn er mjög langur gefur það augaleið að það er ekki löglegt eins og hlutirnir voru gerðir. Einnig vil ég nefna að bílastæðin eru eingöngu merkt á malbikið þá hverfur það ef það kemur smá föl (já ég er afburðargreind og fattaði þetta), ekki er hægt að setja upp skilti á mitt bílastæði.

Af hverju geta embættismenn í Skagafirði ekki leitað upplýsinga hjá fólki sem þekkir aðgengismál. Ég held stundum að það sé hugsað betur um aðgengismál fyrir hesta en hreyfihamlaða, þó að hægt sé að tala við fólk með hreyfihömlun en það er ekki hægt að skilja hesta.

Þegar ég var að reyna að ná eyrum þessara embættismanna þá upplifði ég bara, að ég væri röflandi kerling. En okey, það er grátlegt að það sé fyrst núna verið að spá í aðgengismál hjá sýndarveruleikanum og munu þær pælingar kosta nánast 100 milljónir. Eru embættismenn í Skagafirði svona fastir í sýndarveruleikanum að þeir sjá ekki raunveruleikann.
Hafa þeir ekkert lært? 

Bestu kveðjur Sigrún Fossberg Arnardóttir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir