Er ekki mikið fyrir að prjóna á nr. 2,5

Kristín Einarsdóttir í blárri peysu en blátt er hennar uppáhaldslitur. Aðsendar myndir.
Kristín Einarsdóttir í blárri peysu en blátt er hennar uppáhaldslitur. Aðsendar myndir.

Það var grunnskólakennarinn, leiðsögumaðurinn og ferðaþjónustuframkvæmdastjórinn, Kristín Sigurrós Einarsdóttir á Sólgörðum í Fljótum, sem sagði lesendum frá handverki sínu í 30. tbl. Feykis 2018. Kristín segist hafa mest gaman af að vinna með lopa og leikur sér þá með liti og mynstur. Á verkefnalistanum var hins vegar að koma sér upp upphlut og taldi hún sig loksins vera búna að komast að niðurstöðu um hvernig hann skyldi líta út. 

Hve lengi hefur þú stundað hannyrðir?
Ég hef stundað hannyrðir nánast síðan ég man eftir mér. Mamma og ömmur mínar kenndu mér að sauma út og prjóna um leið og ég hafði vit til. Ég held að ég hafi látið illa að stjórn í handvinnu í barnaskóla og man eftir að hafa staðið í þrasi við handavinnukennarann af því ég vildi prjóna peysu á litla frænku mína en ekki fara eftir uppskrift. En einhvern veginn tókst mér að komast í gegnum barnaskólann og alveg fram á miðjan aldur án þess að læra nokkurn tímann að hekla.

Hvað handavinnu þykir þér skemmtilegast að vinna?

Mér hefur alltaf fundist krosssaumur heillandi þó það sé langt síðan ég hef gripið í hann. Annars er lopinn í mestu uppáhaldi, mér finnst gaman prófa mig áfram með mismunandi tegundir af honum, mynstur og liti. Allt er þetta efniviður sem á það sameiginlegt að maður er svo fljótur að sjá árangurinn sem hentar mér mjög vel. Ég er afar bráðlát manneskja og fíngerð handavinna og prjónar númer 2,5 eru ekki að mínu skapi!

Hverju ertu að vinna að um þessar mundir?

Ég er að ljúka við síða lopapeysu á mig sjálfa sem á að leysa aðra slíka af hólmi. Í hjáverkum er ég að prjóna eina litla peysu á systurson minn í Noregi og ljúka við lítinn barnakjól sem ég hannaði og byrjaði á fyrir löngu en kláraði aldrei. Hann verður vonandi passlega tilbúinn fyrir litlu ömmustelpuna sem er væntanleg í haust. Upphlutur er á verkefnalistanum en einhvern veginn grunar mig að vinnan við hann lendi að mestu á yngstu systur minni. Systur mínar þrjár fengu talsvert meiri listræna hæfileika í vöggugjöf en ég og svona vinna er betur komin í þeirra höndum.

Hvernig fékkstu hugmyndina?

Hugmyndin að lopapeysunum tveimur er nú bara komin úr Lopabók frá Ístex en ég safna þeim og hef mikið prjónað upp úr þeim. Kjóllinn varð hins vegar til þegar ég reyndi að prjóna barnahúfu með einhvers konar hattasniði sem reyndist passa betur sem pils á ungbarnakjól! Upphluturinn hefur svo verið draumur frá því ég var krakki og í fyrra lét ég verða af því að fjárfesta í silfri. Eftir að hafa skoðað alls konar myndir í nokkur ár held ég að ég sé loks komin að niðurstöðu um hvernig búning ég vil eignast og hvaða liti og efni ég vil hafa í honum.

Hvaða handverk sem þú hefur gert ert þú ánægðust með?

Ég er nú yfirleitt bara nokkuð sátt þegar mér tekst á klára eitthvað. Og oftast endar það með því að mamma hjálpar við fráganginn sem er trygging fyrir því að flíkin takist vel. En sennilega er hvíta, síða lopapeysan mín í mestu uppáhaldi. Fyrirmyndin að henni er norðurljósamynstur úr Lopabók en ég notaði bláa liti, enda blátt minn uppáhaldslitur og getur bæði vísað í sjóinn og fjöllin sem heilla mig alltaf.

 

Mynstruð peysa og skotthúfa eru meðal þess sem hefur orðið til á prjónunum hjá Kristínu.

Alfreð, maður Kristínar, í einni af lopapeysunum úr smiðju hennar.  

   Þessi löber er eitt af örfáum bútasaumsstykkjum sem Kristín hefur gert enda segist hún hafa takmarkaða þolinmæði til að klippa sundur efni til þess eins að sauma þau saman aftur!

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir