Erfðabreytt matvæli skulu merkt
Um árabil hafa Neytendasamtökin krafist þess að settar verði reglur hér á landi um merkingu erfðabreyttra matvæla. Bent hefur verið á að Ísland er eina ríkið í Evrópu þar sem engar slíkar reglur eru í gildi en þær eru mikilvægar til að tryggja valfrelsi neytenda.
Neytendasamtökin hafa í gegnum tíðina sent þeim ráðherrum sem fara með málaflokkinn erindi og ítrekað þá kröfu að settar verði reglur um merkingar líkt og tíðkast annars staðar. Fram til þessa hafa þó undirtektir verið afar dræmar. Nú hefur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tilkynnt að settar verði reglur hér á landi um merkingar erfðabreyttra afurða í matvælum og að stuðst verði við samsvarandi reglur Norðmanna. Neytendasamtökin fagna þessu framtaki ráðherra og vona að þetta langþráða, en jafnframt sjálfsagða, baráttumál verði brátt í höfn.
Hvað eru erfðabreytt matvæli?
Samkvæmt Vísindavefnum kallast matvæli erfðabreytt sem framleidd eru úr lífverum, sem breytt hefur verið lítillega með utanaðkomandi erfðaefni. Mikill meirihluti þeirra eru nytjaplöntur og afurðir þeirra. Erfðabreytingarnar hafa einkum beinst að aukinni framleiðslu með því að gera plönturnar ónæmar fyrir skordýrum og illgresiseyðandi efnum. Mest er framleitt af erfðabreyttum sojabaunum, maís, olíufræjum, kartöflum og tómötum auk baðmullar og tóbaks. Bandaríkin eru langstærsti framleiðandi og útflytjandi erfðabreyttra nytjaplantna. Á eftir þeim koma Kanada og Kína en minnst er framleiðslan í Evrópu.
/ns.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.