Erfiðast fyrir fólk að geta ekki komið saman, hist og blandað geði við aðra

Séra Sigríður Gunnarsdóttir. MYND: ÓAB
Séra Sigríður Gunnarsdóttir. MYND: ÓAB

Feykir hafði samband við séra Sigríði Gunnarsdóttur, sóknarprest í Sauðárkróksprestakalli, og forvitnaðist örlítið um kirkjuhald nú á aðventu og jólum. Sigríður segir fátt benda til þess að samkomur á aðventu geti verið með sama sniði og áður. „Ég lifi í voninni að ástandið verði orðið það stöðugt um jól að fólki verði óhætt að ganga til kirkju,“ segir séra Sigríður.

Hvernig verður kirkjuhaldi háttað nú á aðventu? Við höfum ekki getað skipulagt kirkjustarfið langt fram í tímann og ýmsu sem var á dagskrá hefur þurft að aflýsa, fresta eða sleppa. Ég vonast til að núna eftir mánðarmótin verði slakað til þannig að við getum verið með barnastarfið og fermingarfræðslu fram að jólum. Því miður bendir fátt til að samkomur á aðventu geti verið með sama sniði og við eigum að venjast. 

Ertu farin að sjá fram á hvernig jólamessur muni fara fram? Enn er of langt til jóla til að við spá fyrir um hvort að hægt verði að messa eða ekki. Við höfum tekið tæknina í okkar þjónustu og ætlum að bjóða fólki til messu eða helgistunda á netinu. Það gafst vel í fyrstu bylgjunni og fengum ágætis viðtökur. Internetið er stórkostlegt tæki til að ná til fjöldans og við höfum verið að feta okkur áfram á þeim brautum. Boðun á netinu er örugglega komin til að vera og hentar sumum vel. Ég lifi í voninni að ástandið verði orðið það stöðugt um jól að fólki verði óhætt að ganga til kirkju. Sauðárkrókskirkja er með facebook síðu og einnig Kirkjan í Skagafirði. Hvet alla kirkju- og Kristsvini til að fylgjast með þar. 

Hvernig hafa þessir Covid-mánuðir verið fyrir presta? Kófið fer misjafnlega í presta eins og annað fólk. Þessir mánuðir hafa verið krefjandi á margan hátt. Heilt yfir er erfiðast fyrir fólk að geta ekki komið saman, hist og blandað geði við aðra. Mörg finna til einsemdar og depurðar. Þau sem hafa misst ástvini hafa ekki getað haft útfarir nema með fjöldatakmörkunum og um leið farið á mis við félagslegan stuðning sem er ótrúlega mikilvægur. Í slíkum aðstæðum er nærvera gulls ígildi, heimsókn, klapp á öxlina eða gott faðmlag.

Séra Sigríður segir að hún hafi oft látið sig dreyma um að fá fleiri í kirkju í venjulegar sunnudagsmessur. „Það hefur því komið mér á óvart að fólk saknar þess að ekki sé messað og margir haft orð á því, bæði fastagestir og sjaldséðir kirkjugestir. Við göngum ekki að neinu vísu og stundum kunnum við ekki að meta hlutina fyrr en þeir eru teknir frá manni,“ segir séra Sigríður að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir