Félagslífið blómstrar í Fljótum um verslunarmannahelgina

Það verður óvenju mikið um að vera í Fljótunum um verslunarmannahelgina en þá verða Félagsleikar Fljótamanna haldnir í fyrsta sinn. Dagskráin hefst síðdegis á föstudag og lýkur á sunnudagskvöldi og verður vettvangur hennar vítt og breitt um sveitina. Í auglýsingu um leikana segir að hér sé á ferðinni samveru—og sveitahátíð af gamla skólanum þar sem meginþemað sé félags- og samtakamáttur hvers samfélags. Feykir hafði samband við Sjöfn Guðmundsdóttur sem er formaður Íbúa- og átthagafélags Fljótamanna og spurði hana fyrst að því hvaðan hugmyndin að leikunum væri sprottin.

„Hugmyndin kemur frá Hermanni Sæmundssyni sem er ættaður frá Ysta-Mói í Fljótum.  Hann er mikill áhugamaður um tónlist og hefur getið sér gott orð fyrir að koma út úr bílskúrnum með öðrum frábærum spilurum og þeir hafa haldið nokkur böll í Reykjavík, við góðan orðstír. Hann hafði samband við mig og upphaflega planið var að halda ball í Ketilási með þeim félögum en eina helgin sem Ketilás var laus var um verslunarmannahelgina og þá leiddi eitt af öðru. Hermann fékk Íbúa- og átthagafélag Fljóta í lið með sér og höfum við stutt hann eftir besta megni. Hermann er búinn að leggja ótrúlega vinnu í undirbúning og á mestan heiðurinn af Félagsleikunum.“

Sjöfn segir að með Félagsleikum sé verið að heiðra félagssögu Fljótanna og á laugardag klukkan 10 verður haldinn morgunverðarfundur á Ketilási. „Þar verður margt góðra gesta, m.a. Jón Kristjánsson, fyrrverandi ráðherra, og Hjalti Pálsson sem skrifar Byggðasögu Skagafjarðar, en hann vinnur núna að síðasta bindi hennar sem fjallar um Holtshreppinn í Austur- Fljótum.“ 

Af öðrum viðburðum sem í boði eru má nefna tónleika af ýmsu tagi og gönguferðir með leiðsögn, m.a. um slóðir Bakkabræðra. Sérstök dagskrá verður sem tileinkuð er skáldkonunni Guðrúnu frá Lundi og sýning um ævi hennar ritstörf verður opnuð. Kjötsúpuhlaup Orkusölunnar verður þreytt, boðið til kjötsúpuveizlu aldarinnar, Dalalífs „bar-kviss” á Ketilási, ball og skrall og margt fleira. 

Ýmsir aðilar styrkja Félagsleikana og verður ókeypis aðgangur á alla viðburðina, en veitingar verða seldar og rennur allur ágóði af þeim í að setja upp leiktæki fyrir börn í Fljótum.         

 Dagskrána má nálgast hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir