Fjárlög næsta árs reiðarslag fyrir skólann

Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2015 er gert ráð fyrir verulegri fækkun á nemendaígildum við FNV. „Ef þetta verður niðurstaðan í fjárlögunum þýðir það að við fáum greitt fyrir færri nemendur þrátt fyrir að nemendum við skólann hafi ekki fækkað,“ segir Ingileif Oddsdóttir skólameistari í samtali við Feyki.

„Það er spurning hvað við gerum í framhaldinu, ég er búin að óska eftir fundi í ráðuneytinu til að fara yfir stöðuna og sjá hvernig þeir fá þessa tölu út,“ segir Ingileif.  En hún segir að þetta sé væntanlega gert á þeim forsendum að nú eigi framhaldsskólinn að breytast og  25 ára og eldri nemendur hafi ekki sama rétt til innritunar og þeir sem yngri eru. „Ráðherrann segir að þetta eigi ekki að bitna á 25 ára og eldri sem eru í starfsnámi. Við erum búin að aldursgreina nemendahópinn hjá okkur og þær niðurstöður eru engan veginn í samræmi við niðurskurðinn.“

Hún segist vilja að skólameistarar í Norðvesturkjördæmi taki höndum saman og fari fram á fund með alþingismönnum kjördæmisins um þetta mál.

Munu leita allra leiða til að tryggja áframhaldandi dreifnám

Í fjárlagafrumvarpinu kemur jafnframt fram að framlag til dreifnáms á Hvammstanga verði fellt niður, sem þýðir að óbreyttu að ekki verði hægt að halda út námi haustið 2015.

Það er til samningur um dreifnám í Húnaþingi vestra þar sem fram kemur að framlag ríkisins árið 2015 skuli vera 6,75 milljónir. Því kemur boðaður niðurskurður á fjárlögum okkur óþægilega á óvart,“ segir Guðný Hrund Karlsdóttir sveitarstjóri Húnaþings vestra.

Hún segir að leitað verði allra leiða til að tryggja áframhaldandi dreifnám á Hvammstanga. „Mikil ánægja er meðal heimamanna með fjarnámið og skiptir það sköpum í samfélaginu. Rætt hefur verið við þingmenn og sveitarstjórnarmenn á svæðinu sem og fulltrúa Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra. Allir eru sammála um mikilvægi dreifnámsins, ekki aðeins fyrir Hvammstanga heldur fyrir svæðið allt.  Það hefur sýnt sig að með dreifnáminu skila nemendur sér frekar í áframhaldandi nám í FNV en áður,“ segir Guðný að lokum.

Fleiri fréttir