Fjöldi manns í Víðidalnum um helgina
Stóðréttir fóru fram um helgina í Víðidalstungurétt og var fjölmenni mikið að vanda. Veðrið lék við gesti sem fjölmenntu í dalinn bæði á föstudag í stóðrekstrinum sem og á laugardag þegar stóðið var gengið sundur í réttinni.
Hitamælirinn sýndi tölur sem gætu sómt sér vel á miðju sumri enda skein bros af hverju andliti og var það mat fróðustu manna að gestafjöldinn hafi verið með mesta móti þetta árið. Á laugardagsmorgunn hafði verið pantaður smá rigningarúði til að binda mesta rykið en um hádegið var komin skínandi sól sem gladdi gesti fram á kvöld.
Hrossin komu þokkaleg af fjalli en hægt var að sjá á ungu hrossunum að hestakvefið hafi eitthvað verið að hrjá þau og var nokkuð um það að folöldin hóstuðu án þess að þau væru í slæmu ástandi.
Á laugardagskvöldinu sló Geirmundur Valtýsson lokatóninn í gleðina á réttardansleik í Víðihlíð þar sem húsfyllir var og gleðin stóð fram á nótt.
Að sögn Lögreglunnar á Blönduósi var helgin óskaplega góð þrátt fyrir þennan fjölda gesta. Umferðin gekk vel og þurfti lögregla ekki að hafa mikil afskipti af ökumönnum. Lögregla og sjúkrabíll var kallaður út á laugardeginum þegar kona datt af baki þegar verið var að reka stóð heim úr réttinni en samkvæmt lögreglu var ekki um alvarleg meiðsl að ræða.