Fleiri vilja í fyrsta sætið hjá Framsókn

Frambjóðendur í 1.-2. sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi, Guðveig Lind Eyglóardóttir og Halla Signý Kristjándsóttir.
Frambjóðendur í 1.-2. sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi, Guðveig Lind Eyglóardóttir og Halla Signý Kristjándsóttir.

Það er líf og fjör í framboðsmálum hjá framsóknarmönnum í Norðvesturkjördæmi eftir að Ásmundur Einar Daðason sem skipaði efsta sæti listans í síðustu kosningum, ákvað að taka slaginn í Reykjavík norður í vor. Nú hafa tveir framjóðendur bæst í hóp þeirra sem bjóða sig fram í fyrsta sætið, þær Guðveig Lind Eyglóardóttir í Borgarnesi sem hefur ákveðið að gefa kost á sér í 1. – 2. sæti og Önfirðingurinn Halla Signý Kristjánsdóttir, sem áður hafði boðið sig fram í annað sæti listans, en eins og fram kom í frétt á Feyki.is í gær hefur Stefán Vagn Stefánsson á Sauðárkróki ákveðið að taka stefnuna á fyrsta sætið.

Guðveig Lind Eyglóardóttir hefur verið oddviti Framsóknarflokksins í Borgarbyggð frá árinu 2014. Í fréttatilkynningu segir Guðveig að í gegnum störf sín sem sveitarstjórnafulltrúi hafi hún haft tækifæri til að sinna fjölbreyttum trúnaðarstörfum við ólíka málaflokka. „Þá sat ég í stjórn Sambands sveitarfélaga á Vesturlandi í 6 ár og fékk þar jafnframt tækifæri til að vinna að sameiginlegum áherslumálum landsbyggðasamtakana. Sú reynsla, þekking og innsýn sem mér hefur hlotnast á þessum tíma í samstarfi við öflugan hóp fólks úr ólíkum áttum hefur eflt áhuga minn á því að starfa á þessum vettvangi enn frekar.

Í störfum mínum fyrir Framsóknarflokkinn hef ég lagt áherslu á mikilvægi þess að efla þann hóp sem kemur að flokksstarfinu og hlusta á sjónarmið og áherslur ólíkra hópa. Þá tel ég gríðarlega mikilvægt að þeir sem starfa í umboði kjósenda séu virkir þátttakendur í samfélagsumræðunni og leggi sig fram um að styðja við atvinnulífið uppbyggingu innviða á allri landsbyggðinni."

Í fréttatilkynningu segir að Guðveig Lind sé ein af sjö systkinum, börnum Eyglóar Lind Egilsdóttur. Fædd árið 1976 og er gift Vigfúsi Friðrikssyni verslunarmanni og saman eiga þau þrjú börn. Hún er með BA próf í ferðamálafræði frá Háskólanum á Hólum og lýkur nú í vor meistaranámi í forystu og stjórnun með áherslu á verkefnastjórnum frá Háskólanum á Bifröst.

Halla Signý Kristjánsdóttir hefur setið á þingi fyrir Framsóknarflokkinn frá árinu 2017. Hún er fædd á Flateyri árið 1964 og uppalin á Ingjaldssandi við Önundarfjörð. Nú er Halla búsett í Holti í Önundarfirði. Hún hafði áður tekið ákvörðun um að bjóða sig fram í annað sæti listans. Í tilkynningu Höllu frá 28. desember segir: „Með reynslu, þekkingu og þau verkefni sem ég hef unnið að á yfirstandandi kjörtímabili býð ég fram krafta mína til næstu fjögurra ára. Ég hef fengið tækifæri að vinna með samheldnum hópi þingflokks Framsóknarmanna sem leggur sig allan fram að leiða verkefnin áfram með samvinnu og festu. Mörgum þeirra verkefna sem við löguðum upp með í upphafi kjörtímabils höfum við náð fram þrátt fyrir frá COVID 19."

Í gær sendi Halla svo frá sér svohljóðandi yfirlýsingu:

„Í dag kviknar nýtt tungl, nýtt upphaf, og þá er upplagt að taka nýjar ákvarðanir. Nú hefur Ásmundur Einar tilkynnt að hann hyggst gefa kost á sér í Reykjavíkurkjördæmi norður og þar með hverfa úr oddvitasæti okkar Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi.

Með mína reynslu, þekkingu og þau verkefni í farteskinu sem ég hef unnið að á yfirstandandi kjörtímabili tel ég mig þess búna að taka við keflinu og leiða lista Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi.
Því býð ég mig fram í 1-2. sæti á lista Framsóknar í kjördæminu fyrir næstu Alþingiskosningar. Það hefur verið krefjandi en sérlega ánægjulegt að starfa sem þingmaður NV kjördæmis og er ég staðráðin í að leggja áfram alla mína krafta á vogarskálarnar til þess að vinna að stefnumálum Framsóknar.
Áfram veginn!"
 

Í Norðvesturkjördæmi fer fram póstkosning og munu valdagar standa frá 16. febrúar til og með 13. mars 2021. Kosið verður um fimm efstu sætin. Kjörskrá lokar 30 dögum fyrir valdag póstkosningarinnar eða á miðnætti næstkomandi laugardag, 16. janúar 2021. Framboðsfrestur rennur út mánudaginn 1. febrúar klukkan 12 á hádegi 15 dögum fyrir valdag.

Þeir sem vilja taka þátt í vali á lista flokksins verða að vera skráðir í Framsóknarflokkinn fyrir laugardaginn 16. janúar.  Hægt er að skrá sig á heimasíðu flokksins.

Tengdar fréttir:

Stefán Vagn stefnir á efsta sæti á lista Framsóknar fyrir þingkosningar í haust,

Ásmundur Einar hyggst taka slaginn í Reykjavík norður,

Halla Signý og Stefán Vagn bítast um 2. sætið á lista Framsóknar.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir