Framkvæmdakostnaður við Aðalgötu 21a og 21b á Sauðárkróki stefnir í 324 milljónir

Á fundi byggðarráðs Svf. Skagafjarðar í gær var m.a. farið yfir stöðu framkvæmda við Aðalgötu 21a og 21b á Sauðárkróki, húsnæði þau er hýsir veruleikasýningarsetur 1238. Þar kom fram að verkið hafi farið rúm 100 milljónum fram úr upphaflegri kostnaðaráætlun. Framkvæmdir eru á lokastigum en á haustdögum verður unnið að lokafrágangi utanhúss og í kjallara.
Heildarkostnaður verksins stendur nú í 318 m.kr. og áætlaður kostnaður í árslok 2019 ríflega 324 m.kr. Eftir að sveitarfélagið eignaðist byggingarnar var reiknað með að um 200 m.kr. þyrfti til að koma þeim í „sómasamlegt horf óháð því hver notandi þess yrði“, eins og kom fram í fundargerð sveitarstjórnar í maí 2018.
Árið 2016 var gerður samningur við Kaupfélag Skagfirðinga um makaskipti á Minjahúsinu að Aðalgötu 16b og Aðalgötu 21-21a.
Tveir af þremur fulltrúum í byggðarráði vilja leggja fram drög að viðauka númer 5 við fjárhagsáætlun 2019 sem geri ráð fyrir að fjárfesting eignasjóðs hækki um 27,360 m.kr. vegna framkvæmda við Aðalgötu 21 og verði mætt með aukinni lántöku að fjárhæð 27 m.kr. og lækkun handbærs fjár um 360 þúsund krónur. Álfhildur Leifsdóttir, fulltrúi VG og óháðra í ráðinu lét bóka að framboð VÓ styðji ekki viðauka vegna framkvæmda við Aðalgötu 21a-21b.
Ólafur Bjarni Haraldsson, Byggðalistanum áheyrnarfulltrúi í ráðinu sagði í bókun sinni að framkvæmdirnar við endurbætur húsanna hafi farið allt of langt fram úr þeim áætlunum sem farið var af stað með í upphafi. „Menn hljóta að spyrja sig að því hvort réttar ákvarðanir hafi verið teknar í upphafi og hvað lá þeim ákvörðunum til grundvallar.“
Anddyri norðan Gránu varð meðal þeirra verka sem hækkaði kostnað framkvæmda en ekki var gert ráð fyrir því í upphafi.
Fulltrúar meirihlutans í byggðarráði sögðu í sinni bókun að ástæða framúrkeyrslu kostnaðar mætti m.a. rekja til þess að endurbæturnar hafi náð til stærri hluta hússins en ráðgert hafði verið í upphafi, s.s. uppgerð á 2. hæð Gránu og viðameiri framkvæmdir í kjallara en í upphafi var að stefnt. Þá sé ljóst að kostnaður við uppgerð Gránu í heild sinni hafi verið vanáætlaður og fleiri tímar farið í verkið en áætlað var í flestum verkþáttum enda reyndist nauðsynlegt að ráðast í meiri framkvæmdir vegna ástands hússins en gert var ráð fyrir í upphafi.
„Eftir standa glæsilegar byggingar í eigu sveitarfélagsins, sem eru því og héraðinu til sóma í stað vansa og aðgengilegar öllum. Fellur verkefnið afar vel að markmiðum um verndarsvæði í byggð á Sauðárkróki sem ætlað er að viðhalda og styrkja byggðina á svæðinu þannig að verndun, uppbygging og framþróun haldist í hendur,“ segir í bókun Stefáns Vagns Stefánssonar, fulltrúa Framsóknarflokks og Regínu Valdimarsdóttur, Sjálfstæðisflokki.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.