Fyrirmyndarbikarinn og Sigurðarbikarinn afhentir
Á mótsslitum 17. Unglingalandsmót UMFÍ á Sauðárkróki sl. sunnudagskvöld var tilkynnt hverjir hefðu hreppt Fyrirmyndarbikarinn. Bikarinn að þessu sinni féll í skaut Héraðssambandsins Skarphéðins, HSK.
Á vef UMFÍ er sagt frá því að Fyrirmyndarbikarinn var gefinn af Íþróttanefnd ríkisins og er viðurkenning þess sambandsaðila UMFÍ sem sýnt hefur góða umgengni á keppnisstöðum, tjaldsvæði og á almennum svæðum mótsdagana, háttvísi og prúða framgöngu, m.a. í keppni og við inngöngu á setningu mótsins.
Einnig var Sigurðarbikarinn afhentur á mótsslitunum og var það Jón Daníel Jónsson, formaður Ungmennasambands Skagafjarðar, UMSS, sem tók við bikarnum. Bikarinn er gefinn til minningar um Sigurð Geirdal fyrrverandi framkvæmdastjóra UMFÍ.
Jón Daníel Jónsson, formaður UMSS, með Sigurðarbikarinn sem Helga Guðrún Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ, afhenti. Mynd: UMFÍ.is