Fyrsta brúin yfir Laxá byggð 1876

Leifar fyrstu brúarinnar yfir Laxá. Hægra megin er brúarendinn í landi Höskuldsstaða en vinstra megin í landi Sölvabakka. Horft er niður ána til norðurs. Mynd og myndatexti: Byggðasafn Skagfirðinga.
Leifar fyrstu brúarinnar yfir Laxá. Hægra megin er brúarendinn í landi Höskuldsstaða en vinstra megin í landi Sölvabakka. Horft er niður ána til norðurs. Mynd og myndatexti: Byggðasafn Skagfirðinga.

Fyrir skömmu birti Feykir frétt af brúarsmíði yfir Laxá í Refasveit fyrir um 100 árum síðan og með fylgdi mynd sem áður hafði birst á vef Skagastrandar. Segir í myndatexta að þar sé fyrsta brúin yfir Laxá í Refasveit, byggð á árunum 1924-1927, og sú brú sem nú er í smíðum væri sú þriðja.

Brúin sem byggð var á árunum 1924-1927, Mynd: Skagaströnd Safn.

Þetta er allskostar ekki rétt því fyrsta brúin var smíðuð og sett á Ámundahlaup haustið 1876. Var hún 13 metra löng timburbrú og standa stöplar hennar ennþá rétt neðan brúarinnar sem nú er í byggingu. Önnur brúin var sem sagt byggð árið 1928 25,8 m löng með 19 m boga og 2,6 m breiðri akbraut. Þriðja brúin er sú sem nú er í notkun en hún var byggð árið 1973, 75 m löng eftirspennt bitabrú með fjögurra metra breiðri akbraut. Segir í matsskýrslu Vegagerðarinnar frá 2018 að hæðarlega brúarinnar sé slæm og vegsýn skert þar sem blindhæð sé við suðurenda hennar.

Núverandi brú á Laxá. Mynd ú fornleifaskráningu
Byggðasafns Skagfirðinga/ Helga Aðalgeirsdóttir, 2017.

Fjórða brúin hefur verið í byggingu undanfarin misseri og var lokið við steypuvinnu brúargólfsins þann 22. nóvember sl., og væntanlega tekin í notkun á komandi sumri.

Í fornleifaskráningu Skagabyggðar sem Byggðasafn Skagfirðinga gaf út 2009 segir um brúna á Ámundahlaupi:

„Elsta brúarstæðið á Laxá er um 900m vestur af núverandi brú. Brúin er horfin en brúarendarnir standa enn heilir beggja megin ár hlaðnir úr grjóti og steypt á milli.

Frá steypudeginum mikla 22. nóvember 2022. Mynd: PF.

Vegslóði liggur niður eða brúarendanum sem er nokkuð minni um sig en sá sem er vestan ár eða um þriggja metra langur og um 2,5m á hæð. […] Í Árbók Ferðafélags Íslands 2007 segir: Laxá er ein af fyrstu ám er brúuð var í Húnavatnssýslu. Trébrú var sett á Hlaupið haustið 1876 og þótti ekki lítil fararbót. Sú brú entist illa því vatns- og aurrennsli var mikið á hana í vetrarhlákum og vorleysingum en snjóþyngsli fóru einnig illa með hana. Brúin stóð líka of lágt og voru síðar hlaðnir undir hana öflugir grjótstöplar, styrktir með steinlímsblöndu [...] (ÁFÍ, 166).“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir