Fyrsta formlega útkall Björgunarhesta Íslands

Björgunarhestar Íslands var formlega stofnað fyrir um tveimur árum og eru nokkrar björgunarsveitir sem hafa félagsmenn innan sinna raða. Síðastliðna helgi fékk félagið sitt fyrsta formlega útkall þegar beðið var um aðstoð við leit að konu í Fljótshlíð.

Á föstudeginum mætti einn björgunarmaður Björgunarsveitinni Ingunni, Laugarvatni á tveimur hestum og fékk verkefni við að hraðleita með skurðum og girðingum ásamt gangandi leitarhópi, síðar fékk hann það verkefni að fara á heiðina fyrir ofan Fljótshlíðina ásamt manni á fjórhjóli og leituðu þeir um líklega staði eða svæði.

Á laugardeginum leituðu sex björgunarmenn á hestum. Fjórir menn með átta hesta frá Skagfirðingasveit, einn maður frá Björgunarfélagi Árborgar og einn maður frá Björgunarsveitinni Björgu, Eyrarbakka með fjóra hesta. Fengin var gistiaðstaða fyrir hestana að bænum Fljótsdal og gistu einnig flestir hestaleitarmennirnir þar, hvort sem var í tjaldi, bívak eða bíl.

Fyrra svæðið sem hópurinn fékk úthlutað var Markárfljótsaurar þar sem að ill fært er fyrir fótgangandi menn og fjórhjól komast ekki yfir vegna strauma auk þess sem mikið er um sandbleytu á eyrunum. Náði hópurinn að fara yfir töluvert stórt svæði og reyndust hestarnir vel. Þá var farið í hádegishlé og fengu hestarnir að vera á meðan á bænum Eyvindarmúla í góðu yfirlæti.

Seinna svæðið var svo lúpínuflóð þar sem að fyrir voru tveir menn og hundur að leita. Fór hópurinn einhesta og reið um 70 km samanlagt og fór yfir stórt svæði. Því miður bar leitin ekki árangur þennan dag og er konan enn ófundin.

Meðlimir Björgunarhesta Íslands sem voru við leit eru sammála því að hestarnir geta verið mjög hjálplegir og öflugir í leit sem þessari og koma sér virkilega vel. Hópurinn vill koma fram þakklæti til allra þeirra sem lögðu honum lið, bæði hvað varðar aðstöðu fyrir hrossin, flutning og lán á hrossum, undirbúning og fleira.

/Fréttatilkynning

Fleiri fréttir