Samdi lagið á leiðinni niður Tindastólinn

Það er allt að gerast í tónlist þessa dagana. Nú fyrir helgi var hægt að nálgast fyrsta lag Blankiflur, Above A Fall, á Spotify tónlistarveitunni. Blankiflur er listamannsnafn Króksarans Ingu Birnu Friðjónsdóttur og lagið er magnað, eiginlega epískt, og fantavel flutt.

Inga Birna er dóttir Auðar sjúkraþjálfara og Friðjóns læknis og er margt til lista lagt. Nú er það tónlistin sem hún einbeitir sér að en Inga svaraði Tón-lystinni í Feyki fyrir einu og hálfu ári en þá var það dúettinn Hedband sem var nýbúinn að gefa út lagið One Night. Þar var hún í félagi við Karítas Hörpu Davíðsdóttur sem sigraði í The Voice Ísland um árið. Nú er það hinsvegar sólóverkefnið, Blankiflur, sem Inga einbeitir sér að og Feykir sendi henni nokkrar spurningar í tilefni af útgáfu lagsins.

Hvað er Blankiflur? „Þegar ég var á mínu fyrsta ári í Menntaskólanum á Akureyri lásum við riddarasögur og þar rakst ég á þetta nafn Blankiflur. Það var eitthvað við það sem mér fannst ofsalega fallegt en það þýðist sem hvítt blóm á íslensku,“ segir Inga. „Ég notaðist við þetta nafn á bloggi sem ég var með forðum daga. Þegar kom að því að velja artist nafn fyrir sólóverkefnið mitt þá var þetta nafn eiginlega það eina sem kom til greina. Myndi ekki segja að ég tengi mig beint við sögupersónuna sem ég las um í menntaskólanum en það má samt segja að Blankiflur leyfir sér að líða, tjá sig og elta ástina í lífinu, hver sú sem hún er – viss ýkt útgáfa af sjálfri mér ef svo má að orði komast.“

Hvernig varð lagið til? „Ég á tvær voicerecording [raddupptökur] í símanum mínum frá 30. apríl 2019. Þann dag var ég að prófa nýju skíðalyftuna í Tindastóli í fyrsta sinn í blíðskaparveðri; logni, sól og nýföllnum snjó. Í fyrri upptökunni er ég á leiðinni upp brekkuna í skíðalyftunni og við mér blasir svo mikil fegurð þegar ég horfi langt inn á hálendi er ég nálgast toppinn. Þá kom fyrsta versið til mín og ég notast nánast alveg orðrétt við það í lokaútgáfunni. Á leiðinni niður kom svo viðlagið til mín og ég söng það inn á símann, eftir að hafa haft mikið fyrir því að koma honum í gang því hann átti það til að slökkva á sér í kulda, og ef ég hefði ekki komið hugmyndinni inn hefði ég mögulega ekki munað eftir laglínunni.“

Hvað geturðu sagt okkur um Above A Fall? „Fyrir mér er lagið um að sækja tilgang, tengingu og orku í náttúruna, hvernig allt verður kristalskýrt ef maður horfir á heildarmyndina úr fjarðlægð og hvað við þurfum í rauninni lítið til að lifa af. Ég ætlaði ekki að gefa þetta lag út fyrst ef ég á að segja alveg eins og er. En svo fékk ég COVID-veiruna og í einangruninni upplifði ég einfaldleikann og fegurðina í honum og fannst liggja á að koma þessu lagi út í cosmósið. Má segja að það eigi vel við á þessum tímum.“

Er það langt ferli að semja og útsetja lag, hvernig semurðu og ertu tilbúin með fleiri lög undir hatti Blankiflur? „Það er mjög misjafnt hver meðgöngutími hvers lags er. Venjulega fæ ég laglínu og hugmynd að texta í höfuðið og tek það upp á voice recorder. Stundum melti ég lagið aðeins og það tínist hægt og rólega inn í það en með Above A Fall fannst mér það eiginlega koma nokkuð heilt til mín þennan dag í apríl fyrir ári. Ég fer þá með hugmyndina til Stefáns Arnar Gunnlaugssonar og við vinnum lagið áfram í stúdíóinu hans. Ég spila ekki á hljóðfæri svo fyrir mér væri ferlið ómögulegt ef ég myndi ekki vinna með snillingi eins og honum. Við nostrum svo frekar mikið við productionið og eyðum miklum tíma í hljóðheiminn og vocal production. Okkur finnst það held ég báðum svo ótrúlega skemmtilegt og höfum við oft þurft að „kill our darlings“ í ferlinu til að komast að bestu niðurstöðunni með hvert lag. Við erum að leggja lokahönd á níu laga plötu en vorið 2019 fékk ég rausnalegan styrk frá Rannís til að vinna hana sem var ómetanlegt því ferlið er kostnaðasamt. Aðeins tvö lög eru eftir í vinnslu en þau eru langt komin svo það var orðið tímabært að byrja að gefa út fyrsta lagið.“

Hvað gerist næst hjá Blankiflur? „Næst á dagskrá hjá Blankiflur er að fylgja eftir Above A Fall og undirbúa síðan útgáfu lags númer tvö sem mun væntanlega koma út í júní. Væntingarnar er hóflegar, ég hef virkilega fundið mig í þessu ferli sem ég hef farið í gegnum undanfarin tvö ár sem ég hef unnið að plötunni og get ekki beðið eftir að vinna meira efni – svo það er ekki vöntun á hugmyndum. Fyrir mér er það það sem skiptir öllu máli í þessu, að þetta sé gaman... og satt, en öll lögin eru einhverskonar úrvinnsla sem er svo hreinsandi. Ég hef líka alveg ofsalega gaman af því að koma fram og vonast til að geta flutt lögin mín á sviði þegar hömlum og samkomubönnum fer að ljúka. En þangað til læt ég duga að gefa tónlistina út og leyfa fólki að njóta gegnum græjurnar sínar. Ég mæli samt með góðum headphones eða hátölurum,“ segir Inga Birna að lokum.

Hægt er að hlusta á Above A Fall á Spotify >

Inga Birna svarar Tón-lystinni á Feyki >

 Sjá einnig > www.facebook.com/Blankiflur/

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir