Fyrstu Gæruböndin kynnt til leiks

Tónlistarhátíðin Gæran verður haldin í húsnæði Loðskins/Atlantic Leather á Sauðárkróki helgina 13. og 15. ágúst nk. Nú hafa fyrstu bönd hátíðarinnar verið kynnt til leiks og eru þau hljómsveitin góðkunna Lockerbie, unga og efnilega bandið VIO og sólóistinn Óskar Harðar.  

Hljómsveitin Lockerbie​ steig fyrst á svið Gærunnar árið 2012. „Það er ekki orðum of aukið að segja að hver einasta manneskja naut hverrar sekúndu af draumkenndri tónlist þeirra Lockerbie manna. Tónlist Lockerbie hefur sérstöðu í íslensku tónlistarlífi og þeir sem heyra hana einu sinni vilja ólmir heyra meira,“ segir í fréttatilkynningu frá Gæruliðum.

https://youtu.be/MYuM4Kb_qXM

Sigurvegarar Músíktilrauna í fyrra  

Hljómsveitin VIO (Vio - band​) er ársgömul um þessar mundir en sveitin var sett saman rétt fyrir Músíktilraunir í fyrra. Í tilkynningunni segir að sveitin hafi gert sér lítið fyrir og unnið keppnina. Í framhaldinu gerði sveitin samning við Senu og fyrsta plata sveitarinnar kom út fyrir Jól og heitir Dive IN.

„Platan fékk frábærar viðtökur gagnrýnenda og þykir mjög góð. Þeir eru í viðræðum við erlend plötufyrirtæki og ljóst að árið verður spennandi hjá strákunum. VIO munu stíga á svið Gærunnar í ágúst og erum við afar ánægð að hafa þá í hópnum okkar!“ segir í tilkynningunni.

https://youtu.be/6twmIwBrsAk

Frumsamin og flott tónlist

Óskar Harðar​ er fyrsti sólóistinn sem kynntur er til leiks en hann spilar frumsamda og fjölbreytta tónlist á kassagítar. „Hann hefur áður komið við sögu á Gærunni. Við erum spennt að taka á móti Óskari í ágúst!“

https://youtu.be/MubHLZ4ODEw

Feykir mun að sjálfsögðu fylgjast grannt með framvindu mála.

 

Fleiri fréttir