Fyrstu húsin tengjast í vikunni

Heitu vatni var hleypt á nýjar hitaveitulagnir á Skagaströnd í síðustu viku. Reiknað er með að fyrstu húsin geti tengst hitaveitunni í þessari viku og er vonast til að öll hús verið komin með hitaveitu næsta haust. Áætlað er að húshitunarkostnaður lækki um 30-40 prósent að meðaltali.

Á vef Húna.is er sagt frá því að undirbúningur fyrir hitaveitu á Skagaströnd hófst á síðasta ári og heitt vatn tók að streyma þangað á miðvikudag um stofnlögn frá Blönduósi. Heita vatnið kemur úr borholu í landi Reykja í Húnavatnshreppi sem er í um 40 kílómetra fjarlægð og þurfti því að byggja þrjár dælustöðvar á leiðinni. Blönduósingar fá heitt vatn úr sömu borholu og til að anna aukinni notkun þurfti að leggja nýja og sverari leiðslu frá Reykjum og til Blönduóss. 7

Magnús B Jónsson, sveitarstjóri á Skagaströnd, sagði í samtali við Ríkisútvarpið að næstu daga verði vatni jafnt og þétt hleypt á dreifikerfið innanbæjar. „Það verður byrjað á stofnlögnunum, stálpípunum sem liggja í gegnum byggðina. Auðvitað þarf að láta renna dálítið í gegnum lagnirnar til þess að ná upp hita og halda honum uppi á meðan að húsin eru að koma inn".

Það kostar mikið fyrir íbúana að taka inn hitaveitu, en á Skagaströnd eru hús kynt með rafmagni. Dýrast er þar sem fyrir eru rafmagnsofnar, en í húsum sem hafa vatnsofna er kostnaðurinn minni. Á móti kemur umtalsverður stuðningur í formi niðurgreiðslna bæði frá ríki og sveitarfélaginu. Sveitarfélagið Skagaströnd leggur fram fasta upphæð til RARIK fyrir hitaveituna, 180 milljónir króna. Er það gert til að arðsemisútreikningar RARIK vegna framkvæmdanna standist. Auk þess niðurgreiðir sveitarfélagið ofnakaup íbúa allt að 250 þúsund krónur á hverja íbúð. Þá geta íbúðaeigendur einnig sótt um 25 þúsund króna styrk vegna hönnunarkostnaðar þar sem það á við. Samhliða því að hitaveitan verður tengd munu niðurgreiðslur á rafmagni til húshitunar falla niður á svæðinu.

Fleiri fréttir