Gæruhljómsveitir - Boogie Trouble
Nú er undirbúningurinn fyrir tónlistarhátíðina Gæruna í fullum gangi og miðasala hafin á miði.is. Gæran verður haldin í húsnæði Loðskins/Atlantic Leather á Sauðárkróki helgina 15. og 16. ágúst nk. Feykir hafði samband við hljómsveitirnar og tónlistarmennina sem koma fram á Gærunni í ár og mun vera með stuttar kynningar á þeim fram að hátíðinni.
Boogie Trouble verður á meðal þeirra hljómsveita sem stíga á stokk á Gærunni í ár.
Hvernig mynduð þið lýsa tónlistinni ykkar? Við spilum diskóskotið popp með áhrifum frá 7. og 8. áratugnum og íslenskri sönglagahefð.
Hafið þið lent í skemmtilegum uppákomum á tónleikum hjá ykkur? Á Airwaves 2013 spiluðum við aðalgiggið okkar í Kaldalóni í Hörpu sem er sitjandi salur. Áður en við stigum á svið vorum við ekki viss hvernig það mundi enda þar sem við leggjum uppúr því að fólk dansi en fyrr en varði var allur salurinn staðinn upp og byrjaður að dansa í sætunum sínum sem okkur þótti mjög gaman.
Hvað er á döfinni hjá ykkur? Mikil spilamennska, aðallega í Reykjavík, og svo erum við að leggja lokahönd á okkar fyrstu breiðskífu sem við áætlum að komi út í haust.
Hvernig leggst það í ykkur að spila á Gærunni 2014? Bara mjög vel, hlökkum til!