Gæruhljómsveitir - Klassart

Nú er undirbúningurinn fyrir tónlistarhátíðina Gæruna í fullum gangi og miðasala hafin á miði.is. Gæran verður haldin í húsnæði Loðskins/Atlantic Leather á Sauðárkróki helgina 15. og 16. ágúst nk. Feykir hafði samband við hljómsveitirnar og tónlistarmennina sem koma fram á Gærunni í ár og mun vera með stuttar kynningar á þeim fram að hátíðinni.

Klassart verður á meðal þeirra hljómsveita sem stíga á stokk á Gærunni í ár.

Hvernig mynduð þið lýsa tónlistinni ykkar? Við myndum lýsa tónlistinni sem angurværu poppi með glaðværu tvisti. Á nýju plötunni okkar Smástirni teljum við aðeins hraðar í en við höfum verið að gera hingað til svo þar er að finna gott trommu- og bassagrúv og mikið af synthum. Einnig leggjum við mikið upp úr textasmíðinni og söngnum sem gefur tónlistinni heildræna mynd.

Hafið þið lent í skemmtilegum uppákomum á tónleikum hjá ykkur? Ekkert neyðarlegt sem okkur dettur í hug í fljótu bragði en framtíðin er órannsökuð.

Hvað er á döfinni hjá ykkur? Við vorum að gefa út okkar þriðju plötu og ætlum að halda áfram að fylgja henni eftir og spila eins mikið og við getum. Nú styttist í Menningarnótt, Sandgerðisdaga og Ljósanótt svo það er nóg að gera framundan.

Hvernig leggst það í ykkur að spila á Gærunni 2014? Okkur í Klassart hefur lengi langað að koma fram á Gærunni svo við erum sérlega spennt að spila á þessari skemmtilegu tónlistarhátíð. Við erum líka mjög spennt að sjá hinar hljómsveitirnar sem eru ekki af verri endanum þetta árið.

Fleiri fréttir