Gæruhljómsveitir - Kvika
Nú eru aðeins þrír dagar í að tónlistarhátíðin Gæran hefst og er miðasala í fullum gangi á miði.is. Gæran verður haldin í húsnæði Loðskins/Atlantic Leather á Sauðárkróki um næstu helgi, 14.-16. ágúst nk. Feykir hafði samband við hljómsveitirnar og tónlistarmennina sem koma fram á Gærunni í ár og mun vera með stuttar kynningar á þeim fram að hátíðinni.
Kvika verður á meðal þeirra hljómsveita sem stíga á stokk á Gærunni í ár.
Hvernig mynduð þið lýsa tónlistinni ykkar? Hljómsveitin Kvika spilar melódískt tíunda áratugs popprokk.
Hafið þið lent í skemmtilegum uppákomum á tónleikum hjá ykkur? Eitt sinn vorum við að spila á nokkuð virtum tónleikastað í San Fransisco. Rétt áður en við byrjuðum að spila tókum við eftir því að Mick Jagger sat í einu horni staðarins ásamt öðru fólki. Við bjuggumst við að hann myndi fara fljótlega, en hann sat áfram. Þegar við svo vorum ca hálfnaðir með prógrammið tókum við eftir að Brian Wilson úr Beach Boys kom inn ásamt fylgdarliði og settust hjá Jagger og félögum. Við fórum að sjálfsögðu að fylgjast með þeim félögum frá sviðinu og tókum eftir því, okkur til mikillar gleði að þeir voru að hlusta, dilluðu hausnum í takt við tónlistina og klöppuðu fyrir okkur. Við glöddumst að sjálfsögðu mikið við þetta. Eftir tónleikana kom Brian Wilson til okkar, þakkaði fyrir góða tónleika og bauð okkur að slást í hópinn – sem við að sjálfsögðu gerðum. Eftir þetta sátum við í einhverja 4-5 klukkutíma með Jagger, Wilson og fylgdarliði – fengum okkur bjór og Viskí og áttum eftirminnilegt kvöld með tveimur risum úr tónlistargeiranum sem voru ekkert annað en viðkunnalegheitin uppmáluð. Ógleymanlegt og ómetanlegt.
Hvað er á döfinni hjá ykkur? Næst á döfinni hjá okkur er að gera okkar allra besta á Gærunni 2014. Þann 15. september næstkomandi mun Sena gefa út fyrstu plötu Kviku, sem mun heita Seasons. Í framhaldi af því verður plötunni fylgt eftir með tilheyrandi spileríi og skemmtilegheitum. Sjá nánar: http://www.sena.is/vaentanlegt/vnr/1074
Hvernig leggst það í ykkur að spila á Gærunni 2014? Við erum fullir tilhlökkunar og lofum að gera okkar besta til að trylla lýðinn.