Gæruhljómsveitir - Myrká
Nú er undirbúningurinn fyrir tónlistarhátíðina Gæruna í fullum gangi og miðasala hafin á miði.is. Gæran verður haldin í húsnæði Loðskins/Atlantic Leather á Sauðárkróki helgina 15. og 16. ágúst nk. Feykir hafði samband við hljómsveitirnar og tónlistarmennina sem koma fram á Gærunni í ár og mun vera með stuttar kynningar á þeim fram að hátíðinni.
Myrká verður á meðal þeirra hljómsveita sem stíga á stokk á Gærunni í ár.
Hvernig mynduð þið lýsa tónlistinni ykkar? Tónlistin okkar er innblásin af íslensku náttúrunni, veðráttunni, fjöllunum og kraftinum allt í kring. Tónlistin er mjög fjölbreytt eins og náttúran og spannar allt frá rólegum vögguvísum upp í harðasta rokk. Tónlistin er okkar ástríða og við leggjum allar okkar tilfinningar í smíði laganna enda er aðal tilgangurinn með hljómsveitinni að fá listræna og tilfinningalega útrás við flutning þeirra.
Hafið þið lent í skemmtilegum uppákomum á tónleikum hjá ykkur? Það hefur ýmislegt gerst á tónleikum hjá okkur í gegnum tíðina. Það má til dæmis segja litla sögu frá Gærunni. Þó ber fyrst að nefna að Guðný Lára söngkonan okkar er sjúklega hrædd við köngulær og stekkur iðulega öskrandi frá þeim ef hún sér þær! Í þetta skiptið var Guðny að syngja á sviðinu og ein góð áttfætla fer að dingla sér fyrir framna nefnið á henni þegar allt var á fullu og Guðný að taka eitt af sínum frægu rokköskrum. Hún náði þó að halda aftur af sér og klára lagið án þess að klikka…. mikið. Hún var sjálf hræddust um að köngulóin myndi dingla sér upp í hana.
Önnur saga er frá New York þegar við fórum í okkar seinni túr þar árið 2011. Allan daginn vorum við búin að vera að redda trommusetti keyrandi í bílaleigubíl á Manhattan og yfir til Queens og svo aftur til baka. Þessi ferð tók nokkra klukkutíma í umferðarteppu dauðans! Við vorum orðin vel pirruð og þreytt þegar loksins var búið að leigja bílinn, trommusettið, sækja hljómsveitina og komast á tónleikastaðinn. Tónleikarnir áttu að hefjast klukkan 21 og þegar á staðinn var komið voru bara nokkrar mínútur í að þeir ættu að hefjast en þá uppgötvast, okkur til mikillar skelfingar að cymbal taskan (diskataskan) gleymdist í íbúðinni sem við vorum í, yfir í New Jersey sem er c.a. 30 mín akstur hvora leið. Í stuttu máli varð vertinn alveg foxillur, henti okkur út og bannaði okkur að spila! Við enduðum með því að þurfa að fara tvær ferðir með draslið aftur í íbúðina. Meðan á fyrri ferðinni stóð sátu trommarinn og vinur hans með allt draslið okkar út á miðri göngugötu í New York. Sagan segir einnig að inni hafi setið mikilvægir umboðsmenn frá Californiu sem ætluðu sérstaklega að heyra í okkur… en það eru óstaðfestar fréttir.
Hvað er á döfinni hjá ykkur? Við erum að fara af stað aftur núna eftir c.a. tveggja ára hlé með nýju fólki. Tónlistin hefur eðlilega aðeins breyst og þróast en við ætlum okkur stóra hluti á næstunni. Upptökur á plötu eru á döfinni með haustinu, nokkrir tónleikar eru framundan, við verðum á Dillon um Verslunarmannhelgina, Íslenska rokkbarnum þann 8. ágúst og svo auðvitað á Gærunni þann 15. ágúst. Stefnan er svo auðvitað sett á Airwaves í október og vonandi ýmislegt þar á milli.
Hvernig leggst það í ykkur að spila á Gærunni 2014? Við erum búin að spila tvisvar áður á Gærunni og okkur finnst það æðislegt. Frábærar móttökur og frábært fólk í geggjaðri stemningu. Við mælum klárlega með Gærunni og hrósum öllu því frábæra fólki sem kemur að þessari hátíð en við vitum vel hversu mikil vinna er í að halda svona stóra tónleika.