Gæsir merktar á Blönduósi

Gæsamerkingar á Blönduósi. Myndir:FB/Jón Sigurðsson
Gæsamerkingar á Blönduósi. Myndir:FB/Jón Sigurðsson

Síðasliðinn föstudag voru 45 grágæsir merktar á Blönduósi undir forystu Arnórs Þóris Sigfússonar fuglafræðings hjá Verkís. Blönduósbær lagði verkefninu lið og sendi nokkra vaska unga menn úr unglingavinnunni til þess að smala gæsum og hjálpa til við merkingarnar. Jón Sigurðsson gæsaáhugamaður segir frá þessu á Facebook síðu sinni þar sem meðfylgjandi myndir eru fengnar.

Jón segir að töluverð áhersla hafi verið lögð á að fanga nafna sinn, gæsina Jón Sigurðsson gassa og setja á hann nýjan sendi. Gassi, sem ber númerið 10, slapp þó fram hjá smölum með sinn óvirka GPS sendi um hálsinn og gengur nú laus og algjörlega sambandslaus. Flóttinn leiddi til þess að valinn var stór og stæðilegur gassi úr gæsahópnum sem fékk nafnið Jón Sigurðsson II og ber hann númerið 09.

„Núna á ég tvo fiðraða alnafna sem halda tryggð við Blönduós, geri aðrir betur,“ segir Jón í færslu sinni. Auk Jóns II fengu tveir aðrir gassar GPS sendi um hálsinn sem bera merkin 08 og 27. „Það verður spennandi að fylgjast með þessum fuglum í framtíðinni og vonandi hafa þeir gen sem vísa þeim veginn fram hjá skyttum landsins og leiðina til Skotlands,“ segir Jón.

Húni segir frá.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir