Góður rekstur knattspyrnudeildar Tindstóls

Aðalfundur knattspyrnudeildar Tindastóls var haldinn í gærkveldi en þar var lögð fram skýrsla stjórnar ásamt reikningum og síðan fóru fram kosningar. Skýrslan er nokkuð ítarleg og þar má finna ýmsar upplýsingar um starf deildarinnar í heild sinni og ljóst er að ekki hefur verið setið auðum höndum á starfsárinu. 

13 flokkar kepptu á Íslandsmótinu fyrir hönd Tindastóls og innan flokkanna voru oftar en ekki fleiri en eitt lið.   4. flokkur drengja og M.fl. karla hömpuðu Íslandsmeistaratitli á árinu sem er afar glæsilegur árangur.   Tvö stórmót, Landsbankamótið og Króksmótið voru haldin með pompi og prakt en þessi mót setja svo sannarlega svip sinn á bæjarlífið á meðan þau standa yfir enda koma þúsundir manna til að fylgjast með og taka þátt.

Reikningar ársins 2010 voru lagðir fram og samþykktir.  Rekstrartekjur ársins voru 26.879.678.- en rekstrargjöldin 26.318.923.-   Rekstrarafgangur var því 560.755.- 

-Þessi niðurstaða er afskaplega ánægjuleg, sagði Ómar Bragi Stefánsson formaður knattspyrnudeildarinnar.  -Það er ekki sjálfgefið að íþróttafélög séu með samskonar niðurstöðu og allra síst í því umhverfi sem við höfum verið í á síðustu árum.  Þessi niðurstaða er tilkomin með mikilli vinnu fjölda einstaklinga sem hafa komið að starfsemi deildarinnar og þeim öllum verður seint fullþakkað.  Góðir samstarfsaðilar hafa komið að rekstri deildarinnar og þeim er þakkað fyir þeirra aðkomu.  Þessi jákvæða niðurstaða gefur okkur svigrúm til ýmissa góðra verka á því starfsári sem framundan er og við höfum sagt það og munum standa við það að við munum koma enn betur að yngri flokkunum en áður með ýmsum hætti, segir Ómar.

Framundan er skipulagsvinna fyrir komandi starfsár og gerð fjárhagsáætlunar sem unnið verður eftir.  Eins og komið hefur fram þá mun M.fl. karla og 2.fl. karla senda sameiginlegt lið með Hvöt á Blönduósi til keppni.  Stjórn deildarinnar sér það ekki síst sem fjárhagslegan ávinning og telur að sú sameining muni skila enn meiri hagræðingu.

Stjórn knattspyrnudeildarinnar var öll endurkjörin á fundinum í gær en hana skipa: Ómar Bragi Stefánsson, formaður.  Erna Baldursdóttir, ritari.  Björn Ingi Óskarsson, gjaldkeri.  Skúli V. Jónsson, v.formaður og Pétur Björnsson meðstjórnandi.

Stjórn knattspyrnudeildarinnar vill þakka öllum þeim er komu að rekstri deildarinnar á árinu; iðkendum, foreldrum, þjálfurum, samstarfsaðilum,  þeim sem aðstoðuðu við Landsbankamótið og Króksmótið og hjálpuðu til við önnur mót og leiki á árinu.  Án ykkar væri starfsemin fátækleg.

Fleiri fréttir