Gönguskarðsárvirkjun endurbyggð
Fyrirtækið Íslandsvirkjun hyggst leggja nýja lögn og nýtt stöðvarhús ofan við gömlu brúna á Gönguskarðsá í Skagafirði. Í umfjöllun Morgunblaðsins í dag segir að ætlun fyrirtækisins, sem stofnað hefur dótturfélagið Gönguskarðsárvirkjun ehf., sé að framleiða raforku inn á dreifikerfi RARIK.
Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri RARIK, segir í samtalið við Morgunblaðið að fyrir liggur samkomulag við Íslandsvirkjun um kaup á stíflumannvirki og leigu á vatnsréttindum til næstu 40 ára. Aðeins er eftir að skrifa undir samninga. Verkefnislýsing vegna skipulagsgerðar og umhverfismats vegna endurbyggingar Gönguskarðsárvirkjunar hefur verið kynnt í sveitarstjórn Skagafjarðar.
RARIK hætti rekstri Gönguskarðsárvirkjunar árið 2007 eftir að aðrennslislögn frá henni sprakk, skammt ofan stöðvarhússins á Sauðárkróki. Virkjunin, sem var reist árið 1949, var komin til ára sinna og framleiddi um 1MW þegar mest lét. Búið er að rífa gömlu lögnina að sögn Tryggva Þórs en RARIK mun áfram eiga stöðvarhúsið á Sauðárkróki, þar sem gamlir munir fyrirtækisins eru geymdir.
Íslandsvirkjun hyggst nota gömlu stífluna en leggja nýja niðurgrafna lögn að nýju stöðvarhúsi. Í verkefnislýsingu kemur fram að þegar rekstur virkjunarinnar stöðvaðist minnkaði framleiðsla rafmagns á svæðinu umtalsvert. Talið er að endurbyggingin sé góður kostur til að auka framboð á orku.
„Ef bilanir verða í flutningi á milli svæða er ákveðið öryggi í að vera með framleiðslu innan svæðisins. Eitt af markmiðum í aðalskipulagi sveitarfélagsins Skagafjarðar lýtur að því að vatnsafl verði virkjað þar sem virkjanir eru hagkvæmar fyrir íbúa héraðsins og valda litlu umhverfisraski. Með því að nýta fyrirliggjandi mannvirki á svæðinu eins og gömlu stífluna sem enn stendur eru forsendur fyrir endurreisn virkjunarinnar góðar og krefjast ekki mikils rasks á landi, að undanskilinni fyrirhugaðri fyllingu undir stöðvarhús,“ segir í verkefnislýsingunni sem unnin var af Verkís.
Næsta skref í málinu segir Jón Örn Berndsen, skipulags- og byggingarfulltrúi Skagafjarðar, er að vinna tillögu að deiliskipulagi og nauðsynlegum aðalskipulagsbreytingum, sem fara í auglýsingu og kynningu.