Greta Clough ráðin markaðs- og viðburðarstjórnand Prjónagleði 2020

Greta Clough hefur verið ráðin sem markaðs- og viðburðarstjórnanda Prjónagleðinnar 2020 sem haldin verður á Blönduósi dagana 12.-14. júní næstkomandi en Textílmiðstöð Íslands hlaut á dögunum styrk frá Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra til ráðningarinnar. Greta tók til starfa þann 17. febrúar síðastliðinn að því er segir á Facebooksíðu Textílmiðstöðvar Íslands.
Prjónagleði er haldin af Textílmiðstöð Íslands á Blönduósi og verður þetta í fimmta sinn sem hún er haldin. Verkefni markaðsstjóra er m.a. að skipuleggja viðburði í tenglsum við hátíðina í samstarfi við stofnanir og fyrirtæki á Norðurlandi vestra og að markaðssetja hátíðina, jafnt hér á landi sem erlendis.
Greta Clough hefur víðtæka reynslu af viðburðastjórnun og markaðsetningu. Hún hefur m.a. stýrt Handbendi Brúðuleikhúsi á Hvammstanga og var á síðasta ári kjörin formaður UNIMA á Íslandi sem eru heimssamtök brúðulistafólks. Einnig var Greta var framkvæmdastjóri Elds í Húnaþingi sl. ár.
Undirbúningur að Prjónagleði er þegar hafinn og er hægt að fylgjast með á heimasíðu Textílmiðstöðvar Íslands, www.textilmidstod.is/ og á Facebooksíðunni Prjónagleði - Iceland Knit Fest.