Gríðarmikill fróðleikur um skagfirska persónusögu :: Skagfirskar æviskrár komnar út

Níunda bókin í röð skagfirskra æviskráa, frá tímabilinu 1910-1950, er komin út en það er Sögufélag Skagfirðinga sem stendur að útgáfunni. Bókin er jafnframt sú tuttugasta sem félagið gefur út af Skagfirskum æviskrám en fjórar fyrstu bækurnar, frá tímabilinu 1890-1910, komu út á árunum1964-72 en á árunum 1981-99 komu út sjö bindi í flokknum 1850-1890. Árið 1994 hófst svo útgáfa á æviskrám frá tímabilinu 1910-1950 en hún hefur legið niðri frá árinu 2013.

„Æviskráin hefur legið niðri í níu ár vegna þess að ég hef verið svo bundinn við aðra hluti, fyrst og fremst að ljúka við Byggðasöguna,“ segir Hjalti Pálsson, ritstjóri bókarinnar. „Loksins kláraðist hún og þá fór ég að huga alvarlega að þessu. Það voru nú menn að skrifa fyrir mig, fyrst og fremst Egill Bjarnason,“ útskýrir Hjalti og heldur áfram: „Þegar hann varð áttræður hætti hann við Byggðasöguna og þá lokkaði ég hann í það að fara að skrifa æviskrár.“

Egill tók lítið í það í fyrstu, segir Hjalti, þar sem honum leist ekki á verkefnið en Hjalti hafði agnið sem þurfti og stakk upp á því að hann myndi skrifa um tengdaforeldra sína. „Jú, hann var til í að prófa og eftir það var björninn unninn,“ segir Hjalti en svo vill til að Egill hefur skrifað fjölda þátta. „Hann er í þessu í fjögur ár a.m.k. og vann þetta kappsamlega eins og allt sem hann gerði og hafði skilað af sér milli tvö og þrjúhundruð þáttum.“

Hjalti nefnir einnig Ingimar Jóhannsson og segir bókina ekki hafa komið út ef hann hefði ekki notið aðstoðar hans. „Þó að ég fari yfir þetta allt saman og ritstýri, þarf að samræma skrif og hafa samband við einhverja niðja og hann er það sem ég kalla almannatengslafulltrúi. Það er gríðarlegur tími sem fer í það að hafa samskipti við ættingja, bæði að fá upplýsingar og samþykki og miklir snúningar. Svo skrifar hann nokkra þætti sjálfur. Hann er algjör lykilmaður.“

3200 æviskrárþættir

Aðspurður segir Hjalti að þættirnir séu mikið til valdir af handahófi en þó þannig að leitast sé við að hafa saman systkini eða náskylda. „Sem dæmi í þessari bók erum við með alla Narfastaðabræðurna, Bjössa Narfa, Sverri í Viðvík, Garðar og Erling í Neðra-Ási og Ragnar í Garðakoti. Svo áttu þeir eina systur en hún bjó aldrei í Skagafirði, þannig að það er ekki skrifað um hana.“

Í þessari bók eru 90 þættir og hafa því komið út alls 3200 æviskrárþættir meira en 6000 einstaklinga sem einhvern tímann hafa haldið heimili í Skagafirði á árunum 1850-1950.

„Þetta eru 90 þættir, mismunandi langir, sumir mjög langir en aðrir eru stuttir. Mér finnst alltaf nauðsynlegt að gera svolitla grein fyrir börnunum. Ég vil að það komi fram hvar þau bjuggu og hvað þau störfuðu helst og makar þeirra. En það eru mun ýtarlegri upplýsingar um suma heldur en aðra vegna þess að það er misjafnt hvað við náum miklum upplýsingum.“

Hvar megi finna bókina upplýsir Hjalti að nú séu sölumenn á ferðinni í héraði og utan héraðs fái félagsmenn í Sögufélaginu vitneskju um bókina og valgreiðsla kemur inn á heimabanka. Ekki er um skyldukaup félagsmanna að ræða líkt og með Skagfirðingabók, en hún er í ódýrasta lagi þar sem skráðir félagar fá hana á 6500 krónur. Einnig er bókin fáanleg í betri bókabúðum landsins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir