Hækkun á matarskatti stríðir gegn stefnu flokksins
Stjórn Framsóknarfélags Skagafjarðar hafnar alfarið áformum stjórnvalda um hækkun á virðisaukaskatti í lægra þrepi (matarskatti). Hækkun á matvælaverði gengur gegn þeim er lakari hafa kjörin og stríðir gegn stefnu flokksins um jöfnuð og velferð í íslensku þjóðfélagi. Þetta kemur fram í ályktun frá stjórn Framsóknarfélagsins sem fundaði í dag.
„Stjórn Framsóknarfélags Skagafjarðar ætlast til og treystir þingmönnum Framsóknarflokksins til að koma í veg fyrir hækkun „matarskatts“. Í því sambandi vísum við til stefnu flokksins í þessum málum og einarðrar andstöðu þingmanna flokksins og ekki síst formanns hans við áformum síðustu ríkisstjórnar á haustdögum 2011 um hækkun „matarskatts“. Sú barátta skilaði árangri og væntum við þess sama af núverandi þingmönnum Framsóknarflokksins,“ segir ennfremur í ályktuninni.
Loks segir að Framsóknarflokkurinn verði að vera trúverðugur og tala fyrir sömu áherslum hvort sem flokkurinn er í ríkisstjórn eða stjórnarandstöðu. „Því ber að falla frá þessum áformum um hækkun „matarskatts“ án tafar.“