Hagnaður hjá Blönduósbæ í fyrsta sinn frá 2007
Á síðasta fundi sveitarstjórnar Blönduósbæjar sem haldinn var á þriðjudaginn var ársreikningur vegna ársins 2013 lagður fram til síðari umræðu. Að umræðum loknum bar forseti upp eftirfarandi bókunin, sem og framlagða ársreikninga. Var hvort tveggja samþykkt samhljóða með sjö atkvæðum.
„Rekstrartekjur Blönduósbæjar árið 2013 námu 755 millj. kr. samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi fyrir A og B hluta sem er 4 millj. kr. hærra en fjárhagsáætlun með viðaukum gerði ráð fyrir. Tekjur samstæðunnar hækka um 77 millj. á milli ára sem gerir um 11% hækkun tekna en útgjöld hækka um 30 millj. eða um tæp 5%.
Mesta frávikið er í hækkun lífeyrisskuldbindinga sem hækka um 18 millj. á milli ára. Rekstrarniðurstaða samstæðunnar fyrir fjármagnsliði var jákvæð um 69,4 millj. kr. Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi A og B hluta er jákvæð um 12,2 millj.kr. og er um 20 millj.kr. betri niðurstaða en fjárhagsáætlun með viðaukum gerði ráð fyrir.
Skuldir og skuldbindingar samtals eru 1.151.951 þús.kr. Í árslok 2013 en voru 1.184.735 þús.kr. árið á undan. Tekin voru ný langtímalán að upphæð 40,0 millj.kr. Afborganir langtímalána ársins 2013 voru 102 millj.kr. Eigið fé samstæðunnar um síðustu áramót var 613.751 þús.kr. Skuldahlutfall Blönduósbæjar er 152,5% í árslok 2013 en skuldaviðmið samkvæmt reiknisskilareglum er 138,7%.
Niðurstaða ársins sýnir skýrt merki um traustan rekstur Blönduósbæjar en sveitarfélagið hefur ekki verið rekið með hagnaði frá árinu 2007. Bæjarstjórn vill þakka sérstaklega starfsfólki sveitarfélagsins fyrir góð störf á liðnum árum.”
