Hálka og snjór á flestum fjallvegum landsins

Hálkublettir eru nú á Hellisheiði en þæfingsfærð er á Holtavörðuheiði. Hálka eða snjóþekja er svo á flestum fjallvegum á Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi og á Austurlandi, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.

Á Vestfjörðum er snjókoma og skafrenningur á Þröskuldum og Steingrímsfjarðarheiði en hálka eða snjóþekja á flestum öðrum fjallvegum og sumstaðar hálka eða snjóþekja á láglendi. Frá Bjarnarfirði og norður í Árneshreppi er þungfært og ófært er um Hrafnseyrar- og Dynjandisheiði.

Norðanlands er hálka og skafrenningur á Vatnsskarði en snjóþekja á Þverárfjalli, Öxnadalsheiði, Víkurskarði og þaðan austur yfir Mývatnsöræfi en þar er einnig éljagangur. Dettifossvegur er ófær.

Á Austurlandi snjóþekja, hálka eða hálkublettir á fjallvegum og sumstaðar skafrenningur eða snjókoma.

Smámsaman lagast veður norðan- og norðvestanlands og á fjallvegum dregur úr éljum, vindi og skafrenningi.

Fleiri fréttir