Haukarnir hleyptu Stólunum ekki heim með öll stigin
Tindastólsmenn voru hársbreidd frá fyrsta sigri sínum í 1. deildinni þetta sumarið þegar þeir spiluðu við Hauka í Hafnarfirði í kvöld. Heimamenn náðu að jafna leikinn í uppbótartíma og liðin skiptust því á jafnan hlut. Lokatölur 1-1.
Samkvæmt leiklýsingu á Fótbolti.net þá byrjuðu Stólarnir betur og Fannar Gísla fékk dauðafæri snemma leiks en markvörður Hauka varði vel. Heimamenn náðu yfirhöndinni þegar leið á hálfleikinn og Anton Ari stóð fyrir sínu í marki Tindastóls. Staðan í hálfleik var 0-0.
Síðari hálfleikur var tíðindalítill framan af en Haukar þó heldur hættulegri. Á 65. mínútu kom Benni inn í lið Tindastóls fyrir Fannar Kolbeins og hann gerði sér lítið fyrir og gerði glæsimark á 72. mínútu, lék inn af vinstri kantinum og sendi krullu í fjær vinkilinn. Eftir markið reyndu Tindastólsmenn að hægja á leiknum og þrátt fyrir pressu var lítið í gangi hjá Haukum. Því miður þá tókst Stólunum ekki að halda út og Andri Steinn Birgisson jafnaði á 92. mínútu, kláraði færi sitt af stuttu færi eftir að Anton Ari í markinu hafði fengið boltann í andlitið. Lokatölur 1-1 og Stólarnir með 2 stig að loknum þremur umferðum.
Næsti leikur Tindastóls er heima gegn botnliði KA sem enn hefur ekki fengið stig en leikurinn verður spilaður 5. júní. Þar sem Sauðárkróksvöllur er líkari eyðimörk en fótboltavelli þá er enn óljóst hvar leikurinn fer fram eða hvort liðin vígsla bara leikjum sínum í deildinni.