Hestamennska á Norðurlandi vestra með mörg einkenni klasa
Ráðstefnan Norðan við hrun – sunnan við siðbót? var haldin á Hólum í Hjaltadal fyrir helgina. Á meðal fyrirlesara var Ingibjörg Sigurðardóttir, lektor við ferðamáladeild Háskólans á Hólum, en í fyrirlestri hennar og Runólfs Smára Steinþórssonar, prófessors við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands var fjallað um yfirstandandi rannsóknarverkefni um hestamennsku og ferðaþjónustu í Húnavatnssýslum og Skagafirði.
Á vef Hólaskóla kemur fram að í verkefninu er leitast við að greina þróun hestamennsku á svæðinu út frá kenningum um fyrirtækjaklasa og þann ávinning sem klasar gefa. Rýnt er í þróun hestamennsku, fjölda, eðli, staðsetningu og samkeppnishæfni fyrirtækja í greininni, auk þess sem litið er til tengdra klasa svo sem í ferðaþjónustu og landbúnaði.
- Niðurstöður verkefnisins sýna verulegt umfang hestatengdrar atvinnustarfsemi á svæðinu, allt frá frumframleiðslu, þ.e. ræktun lífhrossa og sláturhrossa, til sérhæfðrar þjónustu sem tengist hestum og hestamennsku. Þéttleiki hestatengdrar starfsemi er mikill. Nefna má að hrossarækt er stunduð á 212 stöðum skv. skilgreiningum verkefnisins á hrossaræktun, tamningar og þjálfun á um 60 stöðum og hestaferðaþjónusta, í formi hestaleigu, hestaferða og hestasýninga fyrir ferðamenn, er boðin hjá 16 fyrirtækjum. Menntun í tengslum við hestamennsku er til staðar, frá námskeiðum fyrir börn og upp á háskólastig, rannsóknir eru töluverðar, viðburðir fjölþættir og þátttaka í félagsstarfi umtalsverð.
Samkvæmt vef Hólaskóla sýnir rannsóknin að hestamennska á Norðurlandi vestra hefur mörg einkenni klasa en frekari rannsókna er þörf til að varpa skýrara ljósi á marga þætti varðandi samspil hestamennsku og ferðaþjónustu og þróun klasa á Norðurlandi vestra