Hitaveituvæðing Óslandshlíðar, Viðvíkursveitar og Hjaltadals hlýtur styrk

Á fundi Byggðastofnunar og framkvæmdastjóra og formanna landshlutasamtaka sveitarfélaga á Laugarbakka í Miðfirði í gær, þann 3. júní sl., voru undirritaðir samningar um styrki til sex landshlutasamtaka sveitarfélaga til sjö verkefna. Eru styrkirnir veittir á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2018-2024. Að þessu sinni var úthlutað 71,5 milljón króna fyrir árið 2019 til sértækra verkefna á sóknaráætlunarsvæðum. Alls bárust 19 umsóknir um styrki að fjárhæð rúmar 278 m.illjónir króna fyrir árið 2019.
Eitt verkefni á Norðurlandi vestra hlaut stuðning. Það er Hitaveituvæðing Óslandshlíðar, Viðvíkursveitar og Hjaltadals sem hlaut styrk upp á 5 milljónir króna.
Önnur verkefni sem styrk hlutu voru Gestastofa Snæfellsness, Þekkingarsetur í Skaftárhreppi, Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði, Orkuskipti og bætt orkunýting í Grímsey, Strandakjarni – undirbúningur og verkefnisstjórn og Vestfirðir á krossgötum – uppbygging innviða og atvinnulífs.
Á vef Byggðastofnunar segir að markmiðið með framlögum til sértækra verkefna sóknaráætlanasvæða sé að tengja sóknaráætlanir landshluta við byggðaáætlun og færa heimafólki aukna ábyrgð á ráðstöfun fjármuna. Áhersla sé lögð á að styrkja svæði þar sem er langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf. Verkefnin sem styrkt eru skuli nýtast einstökum svæðum eða byggðarlögum innan landshlutans eða landshlutanum í heild. Meðal þess sem lagt var til grundvallar við mat á umsóknum voru íbúaþróun, samsetning atvinnulífs og atvinnustig og meðaltekjur.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.