Hjálmar Sigmarsson 100 ára

Á aldarafmælinu í Höfðaborg. Hluti afkomenda stilla sér upp fyrir myndatöku.
Á aldarafmælinu í Höfðaborg. Hluti afkomenda stilla sér upp fyrir myndatöku.

Hjálmar Sigmarsson er fæddur þann 24. apríl árið 1919 á bænum Svínavallakoti í Unadal í Skagafirði. Hann fæddist á sumardaginn fyrsta og var hann skírður Hjálmar Sumarsveinn og sagði móðir hans að hann væri besta sumargjöf sem að hún hefði fengið. Foreldrar hans voru Kristjana Sigríður Guðmundsdóttir og Sigmar Þorleifsson, bændur í Svínavallakoti. Hjálmar er fjórði í röð átta bræðra.

Vorið 1920 þegar Hjálmar var eins árs gamall flutti fjölskyldan að bænum Þverá í Hrolleifsdal. Á Þverá áttu þau heima í átta ár. Er Hjálmar var níu ára flutti fjölskyldan aftur í Unadalinn að bænum Bjarnastöðum og bjó fjölskyldan þar í tvö ár, er þau fluttu í húsið Nöf á Hofsósi. Á æskuheimili Hjálmars var mikið sungið og spilað á harmonikku og fleiri hljóðfæri þegar tími gafst til, en faðir þeirra lék á harmonikku og þeir synir flestir líka. Er Hjálmar var um tvítugt, byggðu fjórir elstu bræðurnir húsið Bræðraborg á Hofsósi sem að fjölskyldan flutti í.

Skólaganga Hjálmars voru fjórir vetrarpartar á Hofsósi. Hjálmar var snemma duglegur að vinna. Eitt sumar var hann í sveit á Kambi og eitt sumar þegar hann var 13 ára var hann með Antoni Pálssyni frá Brúarlandi að heyja töðu í Drangey, en það vantaði töðu fyrir kýrnar. Síðan sem unglingur var hann vetrarmaður í Ártúni hjá Páli og Halldóru, að sjá um skepnurnar og tvo vetur þar á eftir hjá Steini og Soffíu í Neðra-Ási við hirðingar og fleira. Á sumrin var hann á sjó og við beitningu á Hofsósi og var á vertíðum í Hafnafirði, aðallega við beitningu.

Hjálmar hneigðist snemma til búskapar. Þegar Hjálmar var 22 ára tók hann þriðjung jarðarinnar Ennis á Höfðaströnd á leigu. Í Enni hóf hann búskap, bjó þar í fjögur ár og kom sér upp nokkrum bústofni. Árið 1944 kaupir hann Hólkot og Svínavallakot í Unadal og lagði jarðirnar saman. Hólkot er um 5 kílómetrum ofan við Hofsós. Vorið 1950 flytur til hans Guðrún Hjálmarsdóttir frá Kambi í Deildardal. Guðrún var þá 21 árs gömul en hún var fædd þann 23. desember árið 1928. Foreldar hennar voru Hjálmar Pálsson og Steinunn Hjálmarsdóttir, bændur á Kambi. Hjálmar og Rúna giftu sig þann 5. maí árið 1954. Guðrún var lífsförunautur hans í tæplega 70 ár. Alltaf var mikill kærleikur milli þeirra hjóna. Í Hólkoti bjuggu Hjálmar og Rúna frá árinu 1950 til 2015, er þau fóru á heilbrigðisstofnunina á Sauðárkróki. Guðrún lést þann 8. janúar árið 2018 á nítugasta aldursári.

Hjálmar og Rúna áttu miklu barnaláni að fagna. Þau eignuðust tíu börn á 14 árum og afkomendur eru rúmlega 90 talsins. Börn þeirra fæddust á árunum 1951 til 1965, sex stúlkur og fjórir drengir og eru þau í aldursröð, Steinunn, Kristjana Sigríður, Guðmundur Uni Dalmann, Halldór Ingólfur, Ingibjörg Ásta, Guðrún Hjálmdís, Jakobína Helga, Guðfinna Hulda, Haraldur Árni og Hjálmar Höskuldur. Í Hólkoti ólust börnin upp við mikla ást og umhyggju og voru þau systkinin dugleg að létta undir við búskapinn. Mikill gestagangur var alla tíð í Hólkoti og voru Hjálmar og Rúna gestrisin og höfðingjar heim að sækja.

Hjálmar og Rúna byggðu upp jörðina, íbúðarhús, útihús og ræktuðu tún og var vinnudagurinn langur. Blandaður búskapur var lengst af í Hólkoti, kýr, kindur, 700 fjár á fjalli þegar flest var, hænsnabú um tíma og talsvert af hrossum.

Hjálmar er mikill dýravinur og þótti glöggur bóndi. Hann hefur mikið dálæti á hrossum og var hann stoltur af hestunum sínum. Hann tamdi sína fyrstu hesta sjálfur. Hann eignaðist gott hestakyn og fremur fallega hesta. Hafa margir eignast hesta frá Hólkoti sem hafa reynst eigendum sínum vel og eru hestar þaðan komnir um allt land og erlendis. Má í því sambandi nefna að þrjú hross fóru eitt árið frá Hólkoti sem kepptu fyrir hestmannafélögin í Skagafirði á Landsmóti hestamanna. Einn þekktasti hestur, ættaður frá Hólkoti, er Geisli frá Sælukoti, sem vann tvö Landsmót hestamanna í röð í A flokki gæðinga. En móðir Geisla er Dafna frá Hólkoti og er því Geisli ættaður að hálfu frá Hólkoti.

Hjálmar hefur ætíð verið við góða heilsu og mikið hraustmenni. Eitt haust var þannig að ófært var upp í Hólkot og áin ekki kominn á ís. Ekki var búið að brúa ána á þessum tíma en fært var fram að austanverðu í dalnum. Hjálmar hafði pantað síldarmjöl og kom vörubíll með farm af síldarmjöli í 100 kg pokum. Hjálmar bar því pokana yfir ána og tók tvo poka í einu, eða samanlagt 200 kg. Og er áin á þessum stað þröng og djúp.

Hjálmar er öðlingur, hyggindi er honum í blóð borin, hann er hæverskur og háttvís í allri framgöngu og hefur alla tíð verið jákvæður á lífið. Gott var að vinna með Hjálmari með þetta góða skap, hjálpsamur, hörkuduglegur og strangheiðarlegur. Hjálmar er mjög þakklátur maður. Stoltur af sínu ríkidæmi. Barnahópnum og afkomendum sínum. Hjálmar dvelur nú á hjúkrunardeild Heilbrigðisstofnunar Norðurlands á Sauðárkróki. Hjálmar hélt upp á 100 ára afmæli sitt með fjölskyldu sinni og vinum í Höfðaborg á Hofsósi á afmælisdaginn. Mættu á annað hundrað manns í afmælið hans.  

Hjálmar heldur mikið upp á þessi ljóð sem lýsa vel lífshlaupi hans sem er langt og farsælt og hafa verið ort til hans: 
Ort til Hjálmars í tilefni af 80 ára afmæli hans. 

Hólkot er góðbýli heilmikil saga
og hamingjusólin þar skín.
Gæfan þar fylgi um ókomna daga
þetta er afmæliskveðja til þín.

Höfundur Fjóla Kr. Ísfeld

Ort til Hjálmars í tilefni af 70 ára afmæli hans
Á hólnum stendur heiðursvörð,
horfir yfir sína jörð.
Þekkir bæði móa og börð,
mýrardrög og fjallaskörð. 

Hér býr dalahöfðinginn,
heiðursmaður gestrisinn.
Drottinn blessi daginn þinn,
dyggðum prýddur Hjálmar minn.

Höfundur (Sigurbjörg) Erla Jónsdóttir frá Kambi

Móðurafi Hjálmars orti til unga afastráksins síns þegar hann var innan við sex ára
Leiði þig drottinn lífs á línu
litli góði Hjálmar minn.
Forði þér slysi, fári og pínu
fylgi þér bæði út og inn.

Heims í gegnum glauminn galda
gæfu þræði áfram stíg.
Mun þó um síðir mótgangs alda
megna að buga glaðan þig.

Höfundur Guðmundur Kristjánsson

/Haraldur Hjálmarsson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir