Hópslysaæfing á Blönduósi

Æfing í fullum gangi. MYND HBE
Æfing í fullum gangi. MYND HBE

Síðastliðna helgi var haldin hópslysaæfing þar sem viðbragðsaðilar af öllu Norðurlandi vestra tóku þátt. Til æfingarinnar mættu tæplega 200 manns þar sem æfð voru viðbrögð við fjölmennu slysi hópbifreiðar og fólksbifreiða.

 Gerður var tilbúinn vettvangur rétt ofan við Blönduós þar sem hópbifreið hafði lent í árekstri við þrjár fólksbifreiðar, meðal annars var eldur í einni bifreiðinni og þurfti að beita klippum til að ná slösuðum úr tveimur fólksbifreiðanna. Söfnunarsvæði slasaðra (SSS) var í íþróttahúsinu á Blönduósi, sem er skilgreind fjöldahjálparstöð.

Feykir tók tal af Ásdísi Ýr hjá lögreglunni á Norðurlandi vestra sem sagði okkur í hverju æfingin m.a. fólst. „Á heimasíðu Almannavarna er kerfinu lýst nokkuð vel en þar segir: „Stjórnstig í almannavarnaástandi eru þrjú. Aðgerðastjórn, vettvangsstjórn og samhæfingarstöð og er verkþáttaskipurit stjórnun, áætlun, bjargir, framkvæmd jafnan nefnt SÁBF notað við stjórn aðgerða á öllum stjórnstigum,“ segir Ásdís Ýr.

Grunnverkþáttaskipuritið SÁBF má beita við hvaða aðgerðir/verkefni sem er, óháð starfseiningum, umfangi eða stjórnstigi, svo sem við slys, leit, umferðarstjórnun, fjölda- og félagslega hjálp, þjóðhátíð og fleira."

 

Til liðsinnis viðbragðsaðilunum voru ráðgjafar frá Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Slysavarnafélaginu Landsbjörgu, Rauða krossi Íslands og Heilbrigðisstofnun Norðurlands. Til æfingarinnar mættu einnig ungmenni úr Húnaskóla og úr unglingadeild Skagfirðingasveitar ásamt nokkrum fullorðnum einstaklingum úr nærsamfélaginu sem tóku að sér að leika fórnarlömb, án þeirra hefði æfing sem þessi ekki verið möguleg.

„Þátttakendur voru sammála um að dagurinn var hvoru tveggja gríðarlega lærdómsríkur og skemmtilegur. Margir höfðu á orði að æfing sem þessi reyni ekki einungis á samhæfingu viðbragðs heldur einnig hvetur hún fólk til frekari samvinnu og samstarfs,“ segir Ásdís Ýr hjá lögreglunni á Norðurlandi vestra að lokum.
Höskuldur Birkir Erlingsson lögreglumaður á Blönduósi sendi okkur myndir til birtingar með fréttinni sem við erum afar þakklát fyrir. 
 
 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir