Húnavallaskóli fær góða heimsókn

Mynd af vef Húnavallaskóla

Í gær, 2. desember hélt Rauða kross deildin í Austur Húnavatnssýslu kynningu á starfsemi sinni fyrir nemendur 7. bekkjar í Húnavallaskóla.   Hafdís Vilhjálmsdóttir og Einar Óli Fossdal komu og sögðu nemendum frá sögu og uppruna Rauða kross hreyfingarinnar en Rauði krossinn er elsta, virtasta og útbreiddasta mannúðarhreyfing í heimi.

Á Íslandi eru um 50 deildir starfræktar en þær sjá um hvers kyns hjálparstarf og sjálfboðavinnu eins og t.d. fatasöfnun, rekstur sumarbúða fyrir fatlaða, heimsóknarþjónustu og síðast en ekki síst sjá þær um sjúkraflutninga og rekstur sjúkrabíla.  Þau sögðu nemendum einnig frá ferð þeirra til Genf í Sviss á sl. ári en þar fóru þau til að kynna sér höfuðstöðvar Rauða krossins.  Það sem stóð upp úr í ferðinni var Rauða kross safnið sem geymir upplýsingar, muni og myndir frá upphafi hreyfingarinnar 1863 til  ársins 2007.
Að lokum fengu nemendur að skoða nýja sjúkrabíl deildarinnar en hann kom hingað á svæðið sl. vor.  Einar Óli gaf þeim góða innsýn í öll tæki og tól sem eru til staðar í bílnum og sjúkraflutningamenn þurfa að nota ef slys ber að höndum.
Þetta kemur fram á vef Húnavallaskóla

Fleiri fréttir