Hundanámskeið í Skagafirði
Námskeið fyrir hunda og eigendur þeirra verður haldið í Skagafirði dagana 15.-17. maí. Það er Jóhanna Þorbjörg Magnúsdóttir hundaþjálfari sem stendur fyrir námskeiðinu en hún er nýkomin aftur heim til Íslands eftir nám í Bandaríkjunum. „Þetta verður fyrsta námskeiðið sem ég held og þar sem að ég er Skagafirðingur og fyrrverandi Hjaltdælingur langaði mig að koma „heim“ með fyrsta námskeiðið,“ sagði hún í samtali við Feyki.
Námskeiðið hefst á föstudegi með fyrirlestri um hunda og grunnþjálfun þeirra. Laugardagur og sunnudagur eru verklegir þar sem við ætlum að æfa frá klukkan 09:00 til 15:00.
„Námskeiðið verður tvískipt. Fyrir hádegi verður farið yfir grunnhlýðni, eftir hádegi munum við kenna hundunum það sem fólk óskar eftir, allt frá áframhaldandi hlýðniþjálfun yfir í fyrstu skrefin í að sækja kaldan drykk í ísskápinn eða annað sem fólk vill kenna hundinum sínum,“ útskýrir Jóhanna. Fyrirlesturinn verður haldinn í Framsóknarhúsinu en verklega þjálfunin verður haldin á Varmalandi.
Einungis er pláss fyrir átta teymi á námskeiðinu en að sögn Jóhönnu eru enn laus pláss. Skráning er á facebook síðu allirhundar.is og allar nánari upplýsingar eru á heimasíðunni allirhundar.is.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.