Israel Martin og Tindastóll skilja að skiptum

Martin og sonur fagna Maltbikarnum með liði Tindastóls  í Laugardalshöllinni. MYND: HJALTI ÁRNA
Martin og sonur fagna Maltbikarnum með liði Tindastóls í Laugardalshöllinni. MYND: HJALTI ÁRNA

Körfuknattleiksdeild Tindastóls og Israel Martin, þjálfari meistaraflokks karla, hafa komist að samkomulagi um að hann hætti sem þjálfari liðsins. Í fréttatilkynningu frá Körfuknattleiksdeild Tindastóls segir að ákvörðunin hafi verið tekin í mestu vinsemd og báðir aðilar fari sáttir frá borði.

Fréttatilkynningin er á þessa leið: „Körfuknattleiksdeild Tindastóls og Israel Martin hafa komist að samkomulagi um að hann hætti þjálfun meistaraflokks karla. Ákvörðunin er tekin í mestu vinsemd og fara báðir aðilar sáttir frá borði. Israel Martin hefur þjálfað lið Tindastóls síðustu tvö keppnistímabil í Dominosdeild karla með ágætum árangri þar sem bikarmeistaratitill 2018 stendur uppúr. Stjórn KKD Tindastóls vil þakka Israel Martin fyrir gott og óeigingjarnt starf fyrir deildina og óskar honum velfarnaðar í framtíðinni. Stjórn KKD Tindastóls.“

Martin þjálfaði fyrst lið Tindastóls tímabilið 2014-2015 en þá fór liðið alla leið í úrslit Dominos-deildarinnar en tapaði þar fyrir KR. Hann kom á ný til liðsins sem aðstoðarþjálfari haustið 2016 en tók við af Joe Costa áður en árið var liðið og hefur þjálfað lið Tindastóls síðan. Tímabilið 2017-2018 náði hann frábærum árangri með Stólana, gerði liðið að Maltbikarmeisturum og um vorið fóru strákarnir alla leið í úrslitarimmu við KR en meiðsli Hester settu strik í reikninginn hjá Stólunum og liðið mátti sætta sig við að lúta í parket gegn Vesturbæingum enn á ný.

Ljóst er að niðurstaðan í vetur var ekki sú sem væntingar stóðu til og staða Martins erfið eftir að lið Tindastóls var slegið út í 8 liða úrslitum af liði Þórs eftir að hafa náð 2-0 forskoti í einvíginu. Boginn var spenntur hátt og vonbrigðin því mikil. Í viðtali við Feyki í síðustu viku var þó engan bilbug á Martin að finna og sagðist hann þegar byrjaður að undirbúa komandi tímabil, en hann var að hefja síðari árið á tveggja ári samningi við Kkd. Tindastóls. 

Martin færði Tindastólsmönnum sem fyrr segir sinn fyrsta stóra titil tímabilið 2017-2018 þegar lið Tindastóls varð Maltbikarmeistari og spilaði þá bikarhelgi hreint frábæran körfubolta. Í viðtali Feykis var Martin spurður hver munurinn hafi verið á Tindastólsliði þess tímabils og nú í vetur. „Tímabilið á undan þá var hreinlega allt fullkomið – það allra besta. Lykileinkenni liðsins var bara að hafa gaman að því að spila körfubolta. „Já! Þetta er tímabilið!“ – Þannig leið mér síðasta vetur. Þetta tímabil hefur verið allt öðruvísi,“ sagði Martin.

Tindastólsfólk þakkar Israel Martin fyrir góðar minningar og marga glæsta sigra síðustu árin.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir