Júlíus á Tjörn kominn með nokkrar hænur
-Jæja þá er maður komin með nokkrar hænur.....svona sýnishorn má segja, segir Júlíus Már Baldursson á Tjörn á bloggi sínu á vef landnámshænunnar.
-Ég lagaði til bráðabirða til í kofanum hér sem slapp frá brunanum og hanarnir voru í ,setti spænir á gólfið og nýja glugga í hann. Tók svo að mér 14 fallegar hænur frá þremur einstaklingum sem ekki gátu haft þær lengur. Týmdi ekki að láta farga þeim enda flestar ungar og afskaplega fallegar. Svo nú ofdekrar maður og dúllar sér við þær á morgnana og maður er farinn að fá egg á nýjan leik á hverjum degi.
Júlíus segir að ef einhverjir eru að spá í það að fá sér unga nú í vor eða sumar er velkomið að hafa samband við hann og panta og hann mun koma því áleiðis til þeirra sem eru að unga út og pantanir verða afgreiddar.
Búið er að hreinsa brunarústirnar, aka öllu í burtu og setja möl yfir svæðið þar sem útihúsin stóðu áður. Allt var hreinsað út úr tengibyggingunni og var hún gerð fokheld. Allir milliveggir, hurðir, gluggar og það sem eftir var af þakinu var tekið í burtu en nýjar sperrur voru settar á húsið og nýja súð. -Þetta er farið að þokast áfram núna og vonandi verður framhald á, segir Júlíus.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.