Kenýsk áhrif á Krókinn?

Um þessar mundir eru sjálfboðaliðasamtökin Alþjóðleg ungmennaskipti, AUS, að leita að fósturfjölskyldum fyrir unga sjálfboðaliða sem munu dveljast á Íslandi á komandi starfsári. 

Samtökin hafa það að markmiðið að vinna gegn fordómum með því að bjóða Íslendingum að ferðast til annarra landa en ekki síður að taka á móti erlendum sjálfboðaliðum í fjölbreytt verkefni. Sjálfboðaliðinn er ekki hefðbundinn starfskraftur heldur er markmiðið fyrst og fremst að lífga upp á hversdagsleikann og gefa samfélaginu tækifæri á að kynnast einhverju nýju sem og auðvitað sjálfboðaliðanum sjálfum.

Marta Mirjam Kristinsdóttir er formaður AUS og á rætur á Sauðárkrók. Það hefur lengi verið hennar draumur að koma af stað verkefni á Sauðárkróki en því miður hefur ekki gefist tími til þess í þau 6 ár sem hún hefur setið í stjórn samtakanna. AUS eru frjáls félagasamtök sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða mestmegnis af sjálfboðaliðum og því vill tíminn oft fara í að láta dæmið ganga upp s.s. með tilliti til fjármuna o.þ.h.

Fljótlega mun Marta Mirjam hins vegar láta af störfum sem formaður AUS en hún mun þó enn vera tengd starfi félagsins þar sem hún mun leggja land undir fót og halda til Hondúras þar sem hún mun starfa á skrifstofu AUS þar í landi og deila sinni reynslu og læra nýja hluti tengda starfinu. Kaupfélag Skagfirðinga styrkir starfið í Hondúras að hluta og því fannst Mörtu Mirjam tilvalið að nýta seinasta starfsárið sitt í stjórn til þess að láta drauminn um sjálfboðaliða á Króknum loks rætast  og þakka þannig fyrir styrkinn.

AUS hefur nú fundið verkefni fyrir sjálfboðaliða á Króknum en til þess að allt gangi upp er nauðsynlegt að finna fósturfjölskyldu sem er tilbúin að upplifa nýja og spennandi hluti. Sjálfboðaliðinn sem áætlað er að komi í Skagafjörðinn heitir Carren, 25 ára gömul stelpa af Kamba ættbálknum í Kenýa. Hún hefur aðeins lagt stund á tölvunarfræði en í frístundum finnst henni gaman í gönguferðum og að ferðast og er því að sjálfsögðu skáti.

Það er því ljóst að þetta er ansi spennandi tækifæri fyrir fjölskyldur í bænum enda þó fjölskyldur séu mikilvægur tengiliður fyrir sjálfboðaliðana sem tengiliður inn í samfélagið og ekki síst til að læra íslenskuna þá er ekki hægt að neita því að tækifæri fjölskyldunnar sjálfrar er ekki minna. Fjölskyldan kynnist ólíkri menningu og víkkar sjóndeildarhringinn  eignast nýjan fjölskylduvin og margir hafa rætt um að tungumálaþekking barnanna á heimilinu batni, séu börn á heimilinu.

Engar kröfur eru þó gerðar til fjölskyldna að vera af einhverjum stærðum og gerðum og samtökin vilja leggja áherslu á að sjálfboðaliðinn sé alls ekki kvöð heldur sé hann eins og hver annars fjölskyldumeðlimur sem tekur þátt í heimilishaldinu. Ekki er þörf á að vera t.d. með heitan mat á hverjum degi og eins geta samtökin greitt smá fæðispenning með sjálfboðaliðanum. Það má því segja að það mikilvægasta sé að hafa stórt hjarta svo sjálfboðaliðanum líði eins og heima.

Sé áhugi á að kynna sér þetta frekar er um að gera að hafa samband við Mörtu Mirjam í tölvupósti á marta@aus.is eða hringja í framkvæmdastjóra AUS, Kristínu Björnsdóttur, í síma 698-0174.

Fleiri fréttir