Komin á leiðarenda
Þuríður Harpa er nú enn á ný komin til Delhí á Indlandi þar sem hún gengst í þriðja sinn undir stofnfrumumeðferð en upphaflega var gert ráð fyrir að Þuríður þyrfti að fara á nokkurra mánaða fresti í tvö til þrjú ár. Nú er ár síðan Þuríður hóf meðferðina og hefur hún nú þegar fengið mælanlegan bata lömunnar sinnar. Líkt og áður bloggar Þuríður um dvöl sína og mun Feykir birta blog hennar jafnóðum.
“Alltaf gott að komast á leiðarenda, þó ferðalagið frá Íslandi til Delhí sé í sjálfu sér ekkert rosalega langt þá tekur það vissulega sinn toll. Við lögðum af stað kl. 4.45 frá Garðabæ aðfaranótt laugardags og lentum hér í Delhí kl.10.30 á sunnudagsmorgni. Þá tók við smá spenna þar sem farangurinn okkar skilaði sér ekki, loks kom þó hjólastóllinn en hann var líka það eina sem kom. Við tók mikil skriffinnska á flugvellinum og okkur svo sagt að farangrinum yrði keyrt til okkar á Nu Tech þegar hann skilar sér. Við gátum ekkert meira gert og drifum okkur í gegn, eins og venjulega beið eftir okkur strákur af Nu Tech til að fylgja okkur þangað. Ég fékk herbergi beint á móti gamla herberginu, í sjálfu sér ágætis herbergi með svölum en einhvernveginn er hitt betra. Ég fyrirgaf Jody strax að hafa ekki sett mig í sama herbergi þegar ég hitti nágrannan. Hann bankaði hjá okkur fljótlega eftir að við komum og bauð okkur velkomin, þetta var hann Ravi sem ég hitti hér síðast, hann er hér með dóttur sína sem lamaðist frá hálsi í bílslysi í janúar minnir mig. Þórir bróðir var heldur hissa þegar maðurinn rétti honum höndina og sagði blessaður og velkomin á íslensku. Ravi og dóttir hans eru á förum héðan 16. júlí og þá verð ég flutt í gamla herbergið. Hann sagðist svo koma til Reykjavíkur líklega í september til að klæðskerasauma á einhverja íslendinga, en það er það sem hann gerir og hann virðist ferðast heilmikið um heiminn í þeim erindagjörðum að klæðskerasauma á fólk, hann er virkilega viðkunnalegur maður. Annars svaf ég í nær sólarhring, ég sofnaði um eittleitið í gær og svaf nánast sleitulaust til kl. átta í morgun. Mamma og Þórir voru ekkert að hvíla sig eins og ég heldur stormuðu af stað til að skoða nánasta umhverfi og verslanir, mér sýnist að miss Mollý hafi heldur betur fengið liðstyrk. Mamma vaknaði eldspræk kl. átta hellti upp á og rak mig í sturtu, hún hafði þvegið buxurnar mínar í gær og sem betur fer hafði hún verið svo forsjál að stinga nærbuxum af mér í veskið sitt áður en við fórum frá Íslandi þannig að ég hafði hrein föt að fara í, heppin ég að hafa hana með mér. Eins og áður er fátt betra en að komast í sturtu eftir svona ferðalag, sturtan var þó frekar óþæg þar sem ég þurfti að halda henni opinni bókstaflega, eitthvað er hún orðin slöpp og lokaði fyrir vatnið ef ég hélt ekki við hana. Við fórum niður og hittum dr. Ashish og dr. Geetu sem voru áfjáð í að heyra hvernig hefði gengið heima og hvort mér finndist eitthvað hafa bæst við, þau sögðu mér að ég myndi fara í fyrstu stóru sprautun á morgun eða hinn og að ég fengi mikið af sprautum í þessari ferð. Eins hitti ég mömmu dr. Geetu sem er hér enn í endurhæfingu eftir heilablóðfall og hún þrýsti hendina á mér fast og lengi til að ég finndi hvað hún er orðin sterk í handleggnum sem lamaðist. Eins hitti ég Kristnu í anddyrinu, hún sagði mér að henni væri alltaf að fara fram og að hún væri alltaf á ná betri og betri stjórn á blöðrunni. Ég fékk Shivanni aftur sem sjúkraþjálfa, mikið var ég ánægð. Við renndum í gegnum æfingar og hún lét mig strax vita hvar henni fannst hafa bæst við, hún talaði um að ég væri orðin sterkari í báðum fótum en sá hægri væri örugglega sterkari en sá vinstri, sem passar alveg við það sem sjúkraþjálfurnar mínar segja heima og svo mælingarnar. Mamma hitti svo Jody hér niðri sem var þá búin að hringja á flugvöllin og athuga með farangurinn okkar og svo virðist sem hann sé mættur, sem er mikið gott ég slepp þá við að spóka mig um í náttfötunum sem þau létu útvega mér til að fara í ef ég fengi ekki farangurinn.”
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.