Kostnaðarsamar endurbætur framundan á húsnæði Tónlistaskóla
Um 150 nemendur stunda nú nám við Tónlistaskóla Austur Húnavatnssýslu en skólastjóri skólans, Skarhéðinn Einarsson, fór yfir starfsemi skólans á fundi í stjórn Byggðasamlags um Tónlistarskóla A-Hún. Einnig kynnti skólastjórinn i samstarf sem fyrirhugað er við Tónlistarskóla V-Hún og Söngskóla Alexöndru um starfsemi kórs fyrir stúlkur á aldrinum 10 til 15 ára.
Að undanförnu hefur verið unnið við að leggja parket og mála nokkur herbergi í húsnæði skólans á Blönduósi en ljóst þykir að framundan séu kostnaðarsamar viðgerðir á húsnæðinu. Að því tilefni lagði Halldór G Ólafsson fram tillögu þess efnis að stjórn Tónlistarskóla A-Hún fari þess á leit við stjórn Tónlistarfélags A-Hún
að félagið afhendi, án endurgjalds, Tónlistarskólanum húseign félagsins að Húnabraut 26 á Blönduósi. Var tillagan eins og áður segir lögð fram í ljósi þess að fyrir liggur að á húseigninni þarf að framkvæma kostnaðarsamar endurbætur sem ljóst er að Tónlistarskólinn þarf að standa straum af með beinum eða óbeinum hætti. Tillagan var borin upp til atkvæða og samþykkt samhljóða.
Þá lá fyrir fundinum drög að fjárhagsáætlun ársins 2009. Nokkur umræða varð um aksturskostnað starfsmanna við skólann. Skólastjóra og Jens P Jensen var falið að skoða leiðir til lækkunar á kostnaði. Fjárhagsáætlunin var yfirfarin og samþykkt samhljóða. Samþykkt var að senda fjárhagsáætlunina til umfjöllunar í sveitarstjórnum sem standa að byggðasamlaginu.