KR-ingar í heimsókn í gríðarlega mikilvægum leik
Í kvöld mætast stálin stinn á Sauðárkróki þegar Tindastóll tekur á móti KR í Síkinu og hefst leikurinn kl. 19.15. Úrslit gærkvöldsins gera leikinn í kvöld enn mikilvægari en ella.
Með sigri sínum á Keflvíkingum í gærkvöldi, ýttu Njarðvíkingar Tindastóli úr úrslitakeppnissæti og í raun í fallbaráttu, svo naum er staðan. Tindastóll er nú í 9. sæti fyrir leiki kvöldsins en getur með sigri komist upp í úrslitakeppnisstæi á ný, tapi ÍR-ingar fyrir Stjörnunni í kvöld.
Fjölnir sigraði KFÍ vestur á Ísafirði og er nú aðeins einum leik á eftir Tindastóli. Hamar situr í fallsæti með 12 stig, sömuleiðis einum leik á eftir okkar mönnum, en betri staða í innbyrðisviðureignum okkar gegn Hamri, tryggir okkur alltaf sæti fyrir ofan þá, verði liðin jöfn að stigum. KFÍ er síðan á botninum og er í erfiðri stöðu eftir tapið gegn Fjölni í gærkvöldi.
Nú þurfa allir sem vettlingi geta valdið að mæta í Síkið og styðja strákana. Í húfi er bæði sæti í úrslitakeppninni og sæti frá alvarlegum fallslag.
/Tindastóll.is