Kristinn Gísli og félagar hrepptu bronsverðlaun á Ólympíuleikum kokkalandsliða

Frækinn hópur kokkalandsliðs Íslands. Mynd af Facebook-síðu Kokkalandsliðsins.
Frækinn hópur kokkalandsliðs Íslands. Mynd af Facebook-síðu Kokkalandsliðsins.

Íslenska kokkalandsliðið, með Skagfirðinginn Kristin Gísla Jónsson innan borðs, hefur gert það gott á Ólympíuleikum matreiðslumeistara í Stuttgart í Þýskalandi sem hófust þann 14. febrúar. Liðið vann til tvennra gullverðlauna, annars vegar fyrir Chef´s table og hins vegar í Hot Kitchen. „Við erum þriðja besta kokkalandslið Í HEIMI!!!!!!!“ er skrifað á Facebook-síðu kokkalandsliðsins en verðlaunaafhendingin fór fram fyrir stundu og hreppti liðið bronsverðlaunin í samanlögðu stigaskori. Norðmenn unnu gullið og Svíar silfrið.

Í Chef´s table er framreiddur sjö rétta hátíðarkvöldverður fyrir tíu manna borð, auk tveggja dómara og samanstendur m.a. af fiskréttafati, pinnamat, vegan rétti, lambakjöti og desert.

Í keppninni um heitu réttina, Hot Kitchen, er útbúinn þriggja rétta matseðill með forrétti, aðalrétti og eftirrétti sem eldaðir eru frá grunni á keppnisstað fyrir 110 gesti. Dómarar, alls staðar að úr heiminum með tilheyrandi réttindi, dæmdu í keppnunum þar sem meðal annars var tekið mið af bragði, útliti, samsetningu, hráefnisvali og fagmennsku við undirbúning og matargerð.

Kokkalandsliðið hefur æft stíft síðustu átta mánuði fyrir keppnina og fram kemur á veitingageirinn.is að hátt í fjögur tonn af búnaði hafi verið send til Þýskalands en liðið þurfti að setja upp fullbúið eldhús á keppnisstaðnum. Þá er ótalið það hráefnið sem flytja þurfti á staðinn en kokkalandsliðið lagði áherslu á að nota sem mest af hágæða íslensku hráefni í matargerðina.

Kristinn Gísli segir að mjög vel hafi gengið í keppniseldhúsinu og mikil gleði í hópnum. „Við bjuggumst við góðu gengi í Hot Kitchen, en við vissum ekki alveg hvar við stóðum í Chef´s table sem er alveg ný keppni fyrir okkur. Það sem kom mest á óvart var hversu vel okkur gekk í þeirri keppni,“ sagði Kristinn Gísli kampakátur í samtali við Feyki í gær. Þá var liðið að pakka niður fraktinni sem verður send heim til Íslands í dag.

Veitingageirinn.is greinir frá því að þetta muni vera í fyrsta skipti sem Íslenska kokkalandsliðið kemst á verðlaunapall, en besti árangurinn á Ólympíuleikunum hingað til er 9. sætið.

Tengdar fréttir:
Kokkalandsliðið hlaut gull fyrir Chef´s table 
Kokkalandsliðið á leið til Stuttgart 

Fleiri fréttir