Kvennafrídagurinn er á mánudaginn

Í tilefni Kvennafrídagsins nk. mánudag, 24. október, ætla kvenkyns nemendur og starfsfólk Fjölbrautaskóla Norðurland vestra á Sauðárkróki að leggja niður vinnu klukkan 14:38 og hvetja aðrar konur til að gera hið sama. Áætlað er að safnast saman við grjótvörðuna milli bóknáms-, og verknámshúsa skólans og ganga fylktu liði í bæinn.

Að sögn Ingileifar Oddsdóttur skólameistara FNV verður gengið að Kirkjutorginu og til baka og endað í heimavist skólans þar sem boðið verður upp á kaffi og „meððí. „Ég skora á allar konur að leggja niður vinnu og eiga með okkur góða stund,“ segir Ingileif. Samkvæmt opinberum tölum eru meðalatvinnutekjur kvenna 70,3% af meðalatvinnutekjum karla. Konur eru því með 29,7% lægri tekjur að meðaltali og hafa samkvæmt því unnið fyrir sínum launum eftir 5 klukkustundir og 38 mínútur miðað við fullan vinnudag frá kl. 9–17. Daglegum vinnuskyldum kvenna er því lokið kl. 14:38.

Fyrsti kvennafrídagurinn var baráttudagur sem íslensk kvenréttindasamtök stóðu fyrir mánudagin 24. október árið 1975 og var haldinn hátíðlegur með ræðum og söng á Lækjartorgi í Reykjavík og víðar á Íslandi. Framtakið vakti athygli erlendra blaða- og fréttamanna og víða birtust myndir af útifundum og viðtöl við íslenskar konur í erlendum fjölmiðlum. Á vef Kvennasögusafnsins segir að aðgerð af þessu tagi hafði verið undirbúin í öðrum löndum, t.d. í Bandaríkjunum, en sú íslenska bar af þeim öllum. Má það ekki síst þakka skipulagi og undirbúningi Kvennaársnefndar.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir