Kynning á bogfimi fram að móti

Kynningardagar eru nú í fullum gangi til að hita upp fyrir Unglingalandsmótið sem haldið verður á Sauðárkróki um verslunarmannahelgina, 1.-3. ágúst nk. Næstu daga bjóða íþróttagreinarnar upp á ókeypis æfingar svo allir geta komið og prófað. Í dag, föstudaginn 25. júlí og fram að mótinu ætlar Indriði Ragnar Grétarsson að vera með bogfimikennslu í reiðhöllinni á milli kl. 17-20.

 

Feykir hitti Indriða Ragnar Grétarsson sérgreinastjóra í bogfimi á Unglingalandsmótinu í ár og kynnti sér þessa nýju og spennandi íþróttagrein.

Bogfimi er ekki gömul íþróttagrein á Íslandi en það var fyrst byrjað að stunda hana árið 1974. Það var með stofnun Íþróttafélags fatlaðra í Reykjavík og Íþróttafélags fatlaðra á Akureyri (nú íþróttafélagið Akur) að skipulagðar æfingar hófust hér á landi. ,,Fram til ársins 2007 voru þetta eiginlega einu félögin á landinu sem stunduðu bogfimi. Eftir það fóru t.d. skotfélagið Ósmann og Víkingafélögin að stunda bogfimi og núna undanfarin tvö ár hefur orðið sprenging í bogfimi á Íslandi og þá sérstaklega með tilkomu Bogfimisetursins í Reykjavík. Sem dæmi um það fóru skráðir iðkenndur úr tíu upp í 400 manns á einu ári og hálfu ári,” segir Indriði.

Það eru tólf manns sem æfa bogfimi í Skagafirði í dag og segir Indriði vel hafa gengið að kynna íþróttina og það hafi verið mjög spennandi yfir krakka að koma og prófa bogfimi, en því miður vanti fleiri krakka til að stunda íþróttina. ,,Þetta eru mestmegnis fullorðnir sem stunda bogfimi. Það er mjög mikið af afþreyingu í boði fyrir krakka í dag og því margt sem togar í þau, en þetta gæti til dæmis hentað vel fyrir þá krakka sem finna sig ekki í öðrum íþróttum eins og fótbolta eða öðrum hópíþróttum. Jakob Frímann sagði mér á sínum tíma að hann teldi að þetta gæti hentað mjög vel fyrir þá einstaklinga sem eru með einhvern athyglisbrest eða eru örir og þurfa eitthvað til að tempa sig niður. Þá gæti þetta hentað mjög vel í það, því þarna þurfa þeir að ná sjálfsstjórn á sér til að stunda þetta og ná að hitta.”

Þetta er í fyrsta skiptið sem keppt er í bogfimi á Unglingalandsmóti, en keppt verður í trissuboga og sveigboga. ,,Sveigbogi er sá bogi sem notaður er á Ólympíuleikunum og er aðallega notaður til íþróttaiðkunnar. Trissubogi var upphaflega hannaður til veiða en er mikið kominn inn í keppnispartinn í dag. Aðalmunurinn á þeim er að í sveigboga þá ertu alltaf með spennuna þegar þú dregur upp. En á trissuboganum eru hjól sem virka þannig að þegar þú dregur upp þá kemur ákveðið hak og þá dettur um 70-80% af dragþyngdinni af álaginu, þá ertu ekki alltaf í fullri spennu,” útskýrir Indriði.

Fram að Unglingalandsmóti mun Indriði vera í reiðhöllinni með kynningu á bogfimi frá kl. 17:00 -20:00/21:00 eftir því hversu mikil aðskóknin verður og geta allir þeir sem hafa áhuga á að kynna sér íþróttina komið og fengið að prófa, sér að kostnaðarlausu.

,,Á Unglingalandsmótinu geta allir þeir sem vilja, komið og prófað bogfimi og við verðum með boga fyrir krakka niður í 5/6 ára aldur. Við verðum með kynningu á íþróttagreininni fyrir aftan bókasafnið á milli kl. 13-17 á laugardeginum 2. ágúst og á milli kl. 13-16 sunnudaginn 3. ágúst. Frítt fyrir alla og allir velkomnir,” segir Indriði að lokum.

Fleiri fréttir