Lægstu skuldir sveitarfélaga með yfir 1000 íbúa
Ekkert sveitarfélag á Íslandi með fleiri en 1000 íbúa er með lægri skuldir og skuldbindingar en Húnaþing vestra en þetta var kynnt á fundi byggðaráðs Húnaþings vestra í vikunni.
Fjárhagsstaða Húnaþings vestra er afar traust en heildarskuldir og skuldbindingar í hlutfalli af heildartekjum A-hluta árið 2009 er 50%.Þá eru heildartekjur A-hluta sveitarsjóðs á íbúa einnig hæstar í Húnaþingi vestra árið 2009. Heildarskuldir og skuldbindingar á íbúa í Húnaþingi vestra, m.v. A-hluta sveitarsjóðs árið 2009 eru 365 þúsund en einungis Eyjafjarðarsveit og Rangárþing eystra eru með lægri skuldir pr. íbúa af sveitarfélögum með fleiri en 1.000 íbúa samkvæmt ársreikningum ársins 2009.
Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hefur í störfum sínum haft til hliðsjónar ýmis viðmið til að leggja mat á fjárhagslega stöðu sveitarfélaga í landinu. Við það er miðað að til frekari skoðunar á fjármálum sveitarfélags komi þar sem heildarskuldir eru yfir 150% af heildartekjum í A-hluta reikningsskila sveitarfélags. Samkvæmt ársreikningum ársins 2009 eru 22 sveitarfélög með skuldir umfram 150% af heildartekjum A-hluta en 30 sveitarfélög þegar litið er bæði á A og B-hluta reikningsskilanna.
Byggðaráð lýsti á fundi sínum yfir ánægju með trausta fjárhagsstöðu sveitarfélagsins en lagði áherslu á að óvissa sé í rekstrarumhverfi sveitarfélaga m.a. vegna breytinga á tekjustofnum sveitarfélaga í kjölfar tilfærslu verkefna frá ríki til sveitarfélaga svo og boðaðra breytinga á úthlutun fjárframlaga frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.