Líðan ökumannsins þokkaleg miðað við aðstæður

Á Öxnadalsheiði. Mynd af vef Vegagerðarinnar.
Á Öxnadalsheiði. Mynd af vef Vegagerðarinnar.

Talið er að milli 13 og 17 þúsund lítrar af olíu hafi lekið í jarðveginn þar sem olíubíll frá Olíudreifingu valt út af veginum á Öxnadalsheiði í gær. Vegurinn um heiðina var lokaður í um sex tíma og umferð beint á meðan um Ólafsfjörð og Siglufjörð og varð mikil umferðarteppa um tíma, bæði við Ólafsfjarðargöng og Strákagöng. Olíubíllinn hefur verið fluttur til Reykjavíkur og er, að sögn Harðar Gunnarssonar, framkvæmdastjóra Olíudreifingar, ónýtur.

Hörður segir, í samtali við mbl.is í dag, að líðan ökumanns bílsins sé stöðug og hann við þokkalega heilsu miðað við aðstæður. „Það fór bet­ur en á horfðist. Við heim­sótt­um hann í gær­kvöldi og hann var mun hress­ari og þetta leit bet­ur út en í fyrstu. Hann er í frek­ari rann­sókn­um á sjúkra­hús­inu á Ak­ur­eyri í dag,“ seg­ir Hörður.  

Að sögn Harðar er jarðveg­ur­inn á þeim stað sem bíllinn valt þess eðlis að olí­an lekur beint í gegn­um hann og niður í læk við veg­inn. Nú sé unnið að því að hreinsa eldsneytið úr jarðvegi og vatni og sem stend­ur þykir ólík­legt að skipta þurfi um jarðveg. 

Bjarni Jónsson, forstöðumaður Náttúrustofu Norðurlands vestra, segir að ástæða sé til að skerpa á reglum varðandi flutninga á hættulegum varningi. Rætt var við Bjarna í hádegisfréttum RÚV í dag:

„Ég held að það sé alveg full ástæða til að kortleggja svolítið hvað er undir á þeim svæðum sem verið er að fara með svona flutninga. Kortleggja og greina þá náttúru á leiðinni og þar sem við erum sumstaðar með viðkvæmari svæði en önnur. Að menn viti þá af því þegar verið er að vinna áhættumat og annað sem mun byggja á í leiðarvali og reglum,“ segir Bjarni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir