Lífið og óvissan :: Áskorandinn Arna Ingimundardóttir – Heimfluttur Króksari

Mágkona mín, hún Sigrún Eva, skoraði á mig að skrifa eitthvað gáfulegt. Hún biður ekki um lítið. Ég er, sjálfsagt eins og aðrir á undan mér, búin að hugsa mikið um hvað ég eigi að skrifa um. Á ég að skrifa um hvernig það var að flytja aftur á Sauðárkrók? Börnin mín? Hvernig það er að vera ljósmóðir? Fækkun fæðingastaða á Íslandi? Hvað það getur valdið konum miklum kvíða að þurfa að keyra í 1-2 klst. á næsta fæðingarstað? Ég er engu nær en læt vaða í smá hugleiðingu.

Að vera ljósmóðir finnst mér æðislegt, það starf passar mér og ég hlakka til að mæta í vinnuna sem er ekki sjálfgefið. Ég hef átt erfitt með að hugsa um að vinna við eitthvað annað. Í Reykjavík vann ég m.a. sem ljósmóðir á Vökudeildinni og fannst það besta starf í heimi. Ég átti afar erfitt með að segja upp því starfi, vitandi að ég væri að flytja á Krókinn ekki með neina vinnu sem ljósmóðir. En það var einmitt yfirmaður minn á Vökudeildinni sem eyddi öllum kvíða í sambandi við að flytja frá Reykjavík, frá vinnunni minni. Þegar ég sagði henni fréttirnar brosti hún og sagði ,,vá, en spennandi tímar framundan hjá ykkur“.

Þegar ég sagðist þó ekki vera með neina vinnu þar og þætti það erfitt horfði hún á mig og sagði að maður yrði að passa sig að láta ekki vinnuna skilgreina sig, lífið á ekki að snúast um vinnuna heldur er vinnan einungis einn partur af svo ótal mörgu öðru. Lífið er ein óvissa og þó maður sé búinn að mennta sig eitthvað þýðir ekki endilega að maður vinni við það alla ævi. Eins og hún sagði, kannski uppgötva ég eitthvað alveg nýtt að gera, kannski fæ ég vinnu sem ljósmóðir en óvissan er ekki endilega slæm. Það var algjörlega rétt hjá henni.

Það var þó nokkuð mikil óvissa fyrir mig að flytja aftur á Sauðárkrók en helsta ástæðan fyrir því er að mig langar að ala upp börnin mín hér, úti á landi en ekki í Reykjavík. Ég sé ekki eftir þessari ákvörðun. Mér finnst allt svo miklu auðveldara hér, mér finnst ég hafa grætt marga klukkutíma í sólahringnum sem áður fóru í að sitja í umferð og standa í 10 metra langri röð við kassann í búðinni. Börnunum mínum líður vel og það er það sem skiptir mig mestu máli í lífinu. Jú ég fékk síðan vinnu sem ljósmóðir bæði á Blönduósi og á fæðingardeildinni á Akureyri sem ég er ótrúlega ánægð með því jú ég er ljósmóðir og vil vinna við það.

Punkturinn með þessum skrifum eru að óvissa og breytingar eru alls ekki af hinu slæma. Þó að einar, tvennar eða jafnvel þrennar dyr lokist og bara einar opnist í staðin þá gætu það einmitt verið dyrnar sem gera lífið svo miklu skemmtilegra.

Ég ætla ekki að fara langt með næstu áskorun. Ég skora á systur mína hana Sunnu Ingimundardóttir til að taka við pennanum.

Áður birst í 35. tbl. Feykis 2019

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir