Listaflóð á vígaslóð

Syðsta - Grund í Blönduhlíð. Mynd: Hjalti Árnason
Syðsta - Grund í Blönduhlíð. Mynd: Hjalti Árnason

Menningarhátíðin Listaflóð á vígaslóð hefur síðustu 7 sumur verið haldin á Syðstu-Grund og þar í nágrenni, aðra helgina í júlí. Aðstandendur hátíðarinnar vilja koma því á framfæri að nú í ár verður viðburðum hátíðarinnar dreift yfir sumartímann og auglýstir hverju sinni. Fyrsti viðburðurinn verður haldin nú um helgina, en þá verður haldin sýning á handverki Ásbjargar frá Kúskerpi, fyrrum hótelstýru, til 30 ára við Hótel Varmahlíð.

Ásbjörg er Blöndhlíðingur, fædd og uppalin á Kúskerpi. Hún fór ung að vinna og taka ábyrgð, fyrst heima við búskapinn og sautján ára tók hún að sér ráðskonustarf við vegavinnu og vann við það sumar- parta, næstu sautján árin, mest við flokk föður síns Jóhanns. Eftir grunnskóla tók hún gagnfræðapróf frá Laugaskóla, fór í Húsmæðraskólann að Löngumýri, þar sem hún síðar réð sig til kennslu og var viðloðandi það í um fjórtán ár. Áður hafði hún útskrifast frá handavinnudeild Kennaraskólans, eftir tveggja ára nám.

Ásbjörg hefur verið með okkur hér í garðinum á Listaflóðsdegi og sýnt og selt brot af handverki sínu. Hún er alltaf að, eins og sagt er og þrátt fyrir áföll og heilsubresti gefst hún aldrei upp og í rauninni er hún fyrirmynd fyrir okkur hin. Listilega saumuð og gerð tækifæriskort hefur verið helsti afrakstur hennar síðustu ára ásamt, meðal annars, þæfðum og máluðum kúluhálsskrauti eða fylgihlutum. Hún hefur verið óhemju afkastamikil og eftir hana liggja óteljandi og ómetanlegir, dýrindis handverksmunir, allt frá nokkrum íslenskum þjóðbúningum, útsaumuðum sófasettum og niður í fínútsaumuð tækifæriskort.

Ásbjörg tók vel í það að halda sýningu og með hjálp ættingja sinna og vina verður komin upp glæsileg sýning nú um helgina, í Kakalaskála og verður sýningin opin frá kl. 14-18, dagana 13.-15. júlí. Föstudaginn 13. júlí kl. 17.00, verður í Kakalaskála sérstök dagskrá, í tali og tónum, tileinkuð þessari mögnuðu konu.

Við hvetjum ykkur til að taka rúnt í Blönduhlíðina, þessa sýningu ætti enginn að láta fram hjá sér fara.

Endilega fylgist með á Facebooksíðunni - Listaflóð á vígaslóð, þeir sem tök hafa á því.

 

/Fréttatilkynning

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir