Lóan er komin

Hér er mynd af lóu sem tengist fréttinni ekki beint. Mynd: Alex Máni Guðríðarson.
Hér er mynd af lóu sem tengist fréttinni ekki beint. Mynd: Alex Máni Guðríðarson.

Lóan er komin að kveða burt snjóinn, segir í tilkynningu frá Fuglavernd. Helsti vorboði Íslendinga kom á tilsettum tíma nú rétt fyrir páska en fyrstu lóurnar sáust í Flóanum í dag. Aðeins tvisvar sinnum hafa lóurnar komið seinna en 28. mars, 1999 og 2001, en meðalkomudagur þeirra 1998-2017 hefur verið 23. mars.

Á heimasíðu Fuglaverndar segir að lóan sé einkennisfugl íslenskra móa og útbreiddur varpfugl um land allt og einnig á hálendinu. Lóan er vaðfugl sem verpur einkum á þurrum stöðum, mólendi og grónum hraunum. Hreiðrið er opin laut milli þúfna eða á berangri, klætt með stráum.

„Um helmingur af heimsstofni lóunnar verpur hér á landi, eða um 300.000 pör, svo ábyrgð okkar gagnvart þessum vorboða er mikil og nauðsynlegt að vernda búsvæði hennar.

Vetrarheimkynnin eru í Vestur Evrópu, aðallega á Írlandi en einnig í Frakklandi, Portúgal og á Spáni.“

Um Fuglavernd
Fuglavernd eru frjáls félagasamtök um verndun fugla og búsvæði þeirra. Fuglavernd telur um 1300 félagsmenn. Fuglavernd er aðili að samtökunum BirdLife International sem vinna að verndun fugla og náttúrusvæða í 120 löndum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir