Loftmengunarmælir væntanlegur

Blá móða frá eldgosinu í Holuhrauni hefur verið greinileg á Norðurlandi vestra sl. daga en samkvæmt vef Veðurstofu Íslands liggur skýringin í að vind lægði á landinu sl. þriðjudag. Hæg austlæg átt var á miðvikudag og fimmtudag en fremur hæg vestlæg átt á föstudag og laugardag. Þessa daga dreifðist móða frá eldgosinu í Holuhrauni um mestallt land. Þegar þornaði í veðri og létti til á laugardaginn var móðan vel sýnileg í flestum landshlutum.

Í dag, sunnudag, er útlit fyrir ákveðna sunnanátt og ætti að nást að skipta vel um loft yfir landinu. Þó má búast við því að það gas sem kemur upp í eldgosinu í dag, berist jafnharðan til norðurs, yfir svæði sem afmarkast af Bárðardal í vestri að Öxarfirði í austri. Samkvæmt spá um gasdreifingu er ekki hægt að útiloka mengun á stærra svæði, einkum framan af degi meðan vindur er að ná sér upp.

Á morgun, mánudag, er útlit fyrir suðvestanátt og þá berst mengunin til norðausturs, frá Þistilfirði suður á Hérað.

loft gaedi maelingarEngin hætta á ferðum

Vernharð Guðnason formaður Almannavarnanefndar Skagafjarðar segir enga hættu vera á ferðum hjá íbúum svæðisins, mengunin sé ekki á alvarlegu stigi. Mælir til að fylgjast með loftgæðum er væntanlegur á næstu dögum en fram til þessa hefur næsti mælir verið á Akureyri.

Á vefsíðu sóttvarnarlæknis segir að helstu áhrif gastegunda frá gosinu á heilsu manna eru af völdum  SO2. Helstu einkennin eru erting í augum, hálsi og öndunarfærum og við háan styrk getur fólk fundið fyrir öndunarörðugleikum. Fólk með undirliggjandi astma, berkjubólgu, lungnaþembu og hjartasjúkdóma er viðkvæmara fyrir SO2, heldur en heilbrigðir einstaklingar og fær einkenni við lægri styrk en aðrir. Þeim er því ráðlagt að hafa öndunarfæralyf tiltæk.

Einnig segir að þótt ekki séu til áreiðanleg gögn um að börn séu sérstaklega viðkvæm fyrir SO2 er allur varinn bestur og skynsamlegt að ráðleggingar fyrir fólk með undirliggjandi öndunarfærasjúkdóma gildi líka fyrir börnin.

Almenningur er því hvattur til að bregðast við ef gosmökkur kemur óvænt, halda sig innandyra, loka gluggum og slökkva á loftræstingu, ef þeir verða varir við óþægindi af völdum gosmökksins.

Nánari upplýsingar má finna á vef Veðurstofu Íslands, Umhverfisstofnunar ogSóttvarnarlæknis.

Fleiri fréttir