Manni færri í síðari hluta leiksins
Meistaraflokkur karla hjá Tindastóli mætti liði Selfoss á JÁVERK-vellinum í gær. Selfyssingar höfðu yfirhöndina allan leikinn og sóttu hart að Stólunum. Á 26. mínútu skoraði svo Luka Jagacic fyrsta markið í leiknum úr víti, eftir að leikmaður Tindastóls hafði brotið á í sínum eigin teig.
Samkvæmt vefnum fótbolti.net komu Stólarnir sterkari inn í seinni hálfleik, en á 58. mínútu var Loftur Páll Eiríksson rekinn út af vellinum eftir að hafa fengið sitt annað gula spjald í leiknum. Þorsteinn Daníel Þorsteinsson gerði sér þá lítið fyrir og skoraði annað mark Selfyssinga í leiknum. Á 83. mínútu bætti Þorsteinn Daníel svo við þriðja og síðasta marki Selfyssinga í leiknum. Lokatölur 3-0 fyrir Selfoss.
Tindastóll situr á botni deildarinnar með tvö stig eftir fimm leiki.
Næsti leikur hjá strákunum er laugardaginn 14. júní, en þá taka þeir á móti liði ÍA. Leikurinn er skráður á Sauðárkróksvöll og hefst kl. 14:00